Jólaviðtal – Bylgja Hafþórsdóttir

Við fengum Bylgju Hafþórsdóttur í stutt jólaviðtal núna í desember. Bylgja vinnur sem þjónustufulltrúi á Bókasafni Fjallabyggðar og er tvíburasystir Hrannar, sem vinnur einnig á Bókasafninu.  Bylgja er fædd og uppalin á Siglufirði, fermdist í Siglufjarðarkirkju árið 1978 ásamt systur sinni. Bylgja fluttist svo frá Siglufirði og stundaði nám Verslunarskóla Íslands og síðar Verslunarstjórnun við Háskólann á Bifröst. Hún bjó meðal annars í Melahverfi í Hvalfjarðarsveit og einnig í Ólafsfirði og á Akureyri. Helstu áhugamál hennar eru lestur góðra bók, dýr og útivera.

Bylgja skipaði 7. sæti H-listans í Fjallabyggð í síðustu sveitastjórnarkosningum. Bylgja kallar ekki allt ömmu sína en hún missti húsið sitt úr myglusveppi fyrir um 10 árum í Hvalfjarðarsveit. Hún býr núna í gamla Gagganum á Siglufirði á Hlíðarvegi en það húsnæði hefur verið uppgert á glæsilegan máta.

Öll jólaviðtölin má lesa hér.

 

Jólaviðtal – Bylgja Hafþórsdóttir

 

Hvað finnst þér best við jólin?

Samveran með fjölskyldunni og gleðin í augum barnabarnanna. 

Hvað kemur þér í jólaskap?

Að baka smákökur,  gera laufabrauð með stórfjölskyldunni og skreyta í kringum mig.

Hvað borðar þú á jólunum?

Ég borða jólagraut, hamborgarhrygg á aðfangadag. Hangikjöt og tilheyrandi í hádeginu á jóladag,  á náttfötunum með öllu liðinu mínu.

Hvað er uppáhalds jólalagið þitt og með hvaða söngvara?

Eitt lítið grenitré í flutningi frænda míns, Ívars Helgasonar.

Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn?

Nei, hvorugt.

Hvernig jólatré ertu með?

Oftast með lifandi en eftir að ég kom aftur á Sigló þá var skipt yfir í gervitré sökum fyrirhafnarinnar við að nálgast lifandi tré hér.

Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap?

Já, Polar Express og svo jólaþætti The Big Bang Theory.

Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?

Á öllum stöðunum. Spara alltaf nokkrar til jólakvölds verslananna hér í Fjallabyggð. Finnst það svo mikil stemmning.

Ferðu á jólatónleika ?

Ekki þetta árið.

Ferðu á brennu um áramótin?

Ég horfi á brennuna og flugeldasýningunna úr lúxussæti heima hjá Aroni syni mínum og hans fjölskyldu sem búa í Suðurgötu 75.