Halldór Ingvar Guðmundsson KF – 2017

Íslandsmótið í 3. deild í knattspyrnu er að hefjast og við fengum nokkra leikmenn Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í viðtal. Fyrsta viðtalið er við markmanninn Halldór Ingvar sem leikið hefur 129 leiki fyrir KF og KS/Leiftur og hefur afrekað að skora eitt mark. Hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk árið 2007 og er með reynslumeiri leikmönnum liðsins í dag.

Nafn, aldur, atvinna og búseta.

Halldór Ingvar Guðmundsson. 25 ára. Skiltagerðamaður og meððí. Bylgjubyggð 10. Ólafsfjörður.

Leikstaða(Mark/Vörn/Miðja/sókn)

Markmaður.

Hvernig undirbýrð þú þig fyrir leik?

Mikilvægasti undirbúningurinn minn er að borða vel og rétt. Þegar ég kem í klefann þá hlusta ég á tónlist sem kemur mér í rétta gírinn (Celine Dion) fer svo létt yfir í huganum hvernig ég ætla að reyna spila leikinn og hvað ég vil gera í leiknum. Síðast en ekki síst þá klæði ég mig alltaf í hægri á undan vinstri (skór, legghlífar o.s.frv.) vegna þess að Bjarni Ben er minn maður.

Hvað æfir þú oft í viku?

Áður en ég varð faðir þá æfði ég 10 sinnum í viku en núna er það bara 5-7 sinnum.

Hver er mikilvægasti leikmaður KF?

Það eru margir sem ég tel vera mikilvæga í þessu liði, ég vona að Hjálmar (Örn Elí) verði mikilvægasti leikmaðurinn og verði valinn besti leikmaður 3. deildar. Allavega vil ég að hann skori fleiri mörk en ég í fyrra.

Hver er hraðasti leikmaður KF ?

Allavega ekki Frikki. Áki og Valur mega rífast um þetta.

Hver er grófasti leikmaður KF ?

Björgvin Daði á þann heiður. Þó svo að Hákon Rauði geri líka tilkall til titilsins þá endar hann yfirleitt í verra ásigkomulagi en andstæðingurinn.

Hvaða persónulega markmið hefur þú fyrir leiki sumarsins?

Mín markmið fyrir hvern leik er að halda tuðrunni úr mínu neti, og jafnvel hjálpa sóknarmönnunum að skora í hitt netið.

Hvaða fyrirmynd hefur þú í fótboltanum?

Þær eru nokkrar. Ég er mikil Edwin van der Sar maður, horfði mikið á hvernig hann spilaði leikinn. Heiðar Gunnólfsson var gríðarlega mikilvægur fyrir mig þegar ég var að byrja í meistaraflokk. Og svo klárlega pabbi minn, fékk reyndar ekki að sjá hann spila sjálfur en miðað við sögurnar af honum þá var hann býsna öflugur.

Hvað þarf liðið að gera til þess að komast aftur í 2. deild?

Menn þurfa að halda stemmingu í hópnum og gera þetta að 100% krafti og hafa hausinn rétt skrúfaðan á. Ef allir setja boltann í fyrsta sæti þá getur allt gerst hjá KF.