Héðinsfjarðargöng

Héðinsfjarðargöng voru opnuð 2. október árið 2010. Héðinsfjarðargöng eru tvenn jarðgöng á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar með viðkomu í eyðifirðinum Héðinsfirði. Göngin eru 3,9 km (Siglufjörður-Héðinsfjörður) og 7,1 km löng (Héðinsfjörður-Ólafsfjörður). Vegalengdin milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar er í heild 15 km um göngin.

Héðinsfjarðargöng er stærsta verkefni sem Vegagerðin hefur boðið út og var verksamningur milli Vegagerðarinnar og verktakans Metrostav og Háfell undirritaður á Siglufirði þann 20. maí 2006.

Framkvæmdin er liður í að bæta samgöngur, auka umferðaröryggi og tengja Siglufjörð við Eyjafjarðarsvæðið og styrkja þannig byggð á svæðinu. Framkvæmdin mun stytta leiðina milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar úr 62 km í 15 km miðað við leiðina um Lágheiði og úr 234 km í 15 km miðað við leiðina um Öxnadalsheiði.

Héðinsfjarðargöngin voru grafin úr báðum áttum og hófust gangasprengingar Siglufjarðarmegin síðla í september 2006 og í byrjun nóvember sama ár frá Ólafsfirði. Gröftur frá Siglufirði gekk almennt vel og sprengt var út til Héðinsfjarðar 21. mars 2008. Í byrjun maí 2008 var síðan byrjað á gangagreftri í austanverðum Héðinsfirði og voru tæplega 2 km grafnir frá Héðinsfirði og í átt til Ólafsfjarðar en þar var greftri hætt í lok janúar 2009. Frá Ólafsfirði gekk gröftur misvel og á köflum afar hægt vegna mikils vatnsinnrennslis og tímafrekra bergþéttinga. Sprengt var í gegn til Héðinsfjarðar þann 9. apríl 2009 og tók því gangagröfturinn alls um tvö og hálft ár.

Þrjár spennistöðvar eru í Héðinsfjarðargöngum og sérstök stjórnhús utan á vegskálum í Siglufirði og Ólafsfirði. Öflugt stýrikerfi stjórnar öryggisbúnaði og fylgst verður með umferð og ástandi í göngunum af skjám í vaktstöðvum Vegagerðarinnar. Sérstakir neyðarstjórnskápar eru einnig utan við hvern munna þar sem viðbragðsaðilar geta m.a. stjórnað lokunarbómum og loftræstingu í göngum.

Yfirlitsmynd frá Vegagerðinni, umferðartölur og mengun í Héðinsfjarðargöngum.

Héðinsfjarðargöng