Hákon Leó leikmaður KF – 2018

Við fengum nokkra af leikmönnum Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í viðtal eftir að Íslandsmótinu lauk í 3. deild karla. Liðið enda í 3. sæti deildarinnar og var mjög nálægt því að komast upp um deild þrátt fyrir að hafa byrjað mótið illa. Fyrstur í viðtal var Hákon Leó sem leikur sem vinstri bakvörður hjá KF og er einnig bakari hjá hinu frábæra Aðalbakarí á Siglufirði. Hákon Leó lék 17 leiki í deildinni og tvo í bikarkeppninni, og skoraði 1 mark. Hann hefur alls leikið 55 KSÍ leiki með félaginu.

Einkaviðtal við Hákon Leó leikmann KF.

1. Nafn, aldur, leikstaða, atvinna ?

Hákon Leó Hilmarsson, 21 ára, vinstri bakvörður og Bakari í Aðalbakaríinu á Siglufirði.

2. Hvaða væntingar hafðir þú til KF liðsins áður en Íslandsmótið byrjaði í vor og var eitthvað markmið hjá liðinu fyrir mótið?

Ég hafði miklar væntingar til liðsins, Við áttum mjög gott undirbúningstímabil og vorum við alls líklegir. Markmiðið var að fara upp.

3. KF var í neðsta sæti eftir 5. umferðir, með einn sigraðan leik og 4 töp, og hafði aðeins skorað 2 mörk. Hvað var í gangi í upphafi móts og hvað var gert til að bæta úrslit og leik liðsins?

Það er ekki gott að segja, eins og ég kom fram á áðan þá áttum við mjög gott undirbúningstímabil og unnum okkar riðil í lengjubikarnum. Fyrsti leikurinn okkar gegn KFG var mjög góður og frábær varnaleikur. Aðal vandamálið var að búa okkur til færi og skora, það þurfti bara aðeins að fín pússa liðið.

4. Eftir 10 leiki þá var liðið komið í 7. sæti og hafði unnið 4 leiki, gert 1 jafntefli og tapað 5 leikjum. Taldir þú líklegt að liðið myndi enda í efstu sætunum í deildinni þegar hér var komið við sögu?

Ég viðurkenni það alveg að þegar við vorum að skrapa botninn þá var útlitið ekkert bjart en við náðum að snúa okkar leik við og eftir leikinn gegn Dalvík á útivelli var mjög góður andi í liðinu og ég hafði fulla trú að við gætum endað í efri hluta deildarinnar.

5. Eftir 15 leiki þá var liðið allt í einu komið í bullandi séns að tryggja sér sæti í 2. deildinni. Var mikil spenna fyrir síðustu umferðir Íslandsmótsins, og var eitthvað ákveðið sem hefði mátt fara betur í síðustu þremur leikjum liðsins?

Liðið var svo einbeitt að koma sér eins ofarlega og hægt var eftir slæma byrjun að allt í einu vorum við í kjörstöðu að klára dæmið. Öll lið í kringum okkur voru að tapa stigum hér og þar og við héldum bara okkar striki. Eini leikurinn sem hefði mátt fara betur í þessum lokaleikjum var að sjálfsögðu tapleikurinn gegn KV, hann var gríðarlega mikilvægur í þessari toppbaráttu en enginn af okkur átti góðan dag og KV menn voru með hörkulið sem unnu sanngjarnan sigur.

6. KF endaði aðeins í 5. Sæti árið 2017 á Íslandsmótinu, en í ár var það 3. sætið og hársbreidd frá sæti í 2. deild að ári. Var tímabilið ásættanlegt þegar horft er á allt mótið sem heild ?

Klárlega, miða við þessa byrjun hjá okkur sjá allir sem horfa á tímabilið að 3. sæti er eiginega ótrúlegur árangur. En fyrir tímabil og eftir það vita allir að KF á að sjálfsögðu heima í hærri deild.

7. KF gerði 29 mörk og fékk á sig 23 mörk. Var varnarleikurinn lykill að góðum árangri í sumar? Tímabilið á undan þá skoraði KF 34 og fékk á sig 34.

Alveg pottþétt, í 7 leikjum af 18 fáum við ekki á okkur mark þannig við vorum mjög góðir varnarlega. Sóknarlega vorum við einnig mjög sterkir en okkur vantaði oft smá heppni með okkur til að klára færin.

8. Tíu leikmenn skoruðu mörk KF á Íslandsmótinu, en liðinu hefur vantað mann sem skorar meira en 10 mörk á tímabili. Er þetta það sem skilur liðin af sem komast upp um deild og hafa mikla markahróka í sínu liði?

Þegar upp er staðið þá eru liðin sem komust upp með leikmenn sem skoruðu mörg mörk og eru þeir klárlega ástæða afhverju þessi lið enduðu fyrir ofan okkur, því án þeirra hefðu þeir tapað fleiri stigum.

9. Friðrik Örn (13 leikir) og Hákon Leó (17 leikir) fengu báðir 6 gul spjöld í sumar. Eru þetta grófustu leikmenn liðsins, eða spila þeir bara fastar en aðrir?

Ég get alveg tekið á mig þann heiður að vera grófur leikmaður en við sem lið spilum hart og fast og það fer stundum fyrir hjartað á öðrum liðum og dómurum því miður. Annars er Frikki líka rosa grófur.

10. Reynir Sandgerði og Höttur og Huginn á Austurlandi verða í 3. deildinni næsta sumar, þekkið þið til þessara liða?

Við höfum spilað mikið við þessi lið í gegnum tíðina enda höfum við lengi verið saman í 2. deildinni. Reynis menn eru með mjög sterkt lið sem er á mikilli uppleið núna eftir að hafa fallið í 4.deild fyrir ári síðan. Höttur og Huginn eru alltaf óskrifuð blöð fyrir tímabil þar sem liðin þeirra breytast mjög mikið á milli tímabila, sérstaklega Huginn. En við tökum vel á móti þeim á næsta tímabili og hlökkum bara til að fá þá í heimsókn og heimsækja þá.

11. Hvernig leggst næsta sumar í leikmenn KF? Eigi þið von að halda svipuðum hóp og jafnvel fá nýja menn næsta vor?

Fyrir mína parta hlakka ég mjög mikið til næsta tímabils. Leikmannahópurinn held ég að ætti að haldast svipaður en það er aldrei að vita svona snemma eftir tímabil hvort einhverjir leita annað eða hvort nýjir strákar komi inn, það verður bara að koma í ljós.

12. Fréttamiðillinn Héðinsfjörður.is hefur verið með umfjallanir um leiki KF síðustu árin. Lesa leikmenn þessar fréttir og finnst ykkur að þær auki áhugann á leikjum liðsins ?

Já, öll umfjöllun er góð umfjöllun og í ár fannst mér umfjöllunin um liðið til fyrirmyndar og fólk tók mjög vel í það og var mætingin á völlin til fyrirmyndar.