Gönguleiðir

Evanger rústir á austanverðum Siglufirði

Stutt ganga frá flugvellinum á Siglufirði að rústum Evangers síldarverksmiðjunnar sem fórst í snjóflóði 1919. Ekið í átt að Héðinsfjarðargöngum frá Siglufirði, beygt til vinstri við flugvöll/kirkjugarð, ekið framhjá sumarhúsum í átt að fjöru þar sem vegurinn endar.  Um 15 mínútna ganga eða minna að rústum, fara þarf yfir nokkrar mýrar eða læki sem eru flestir brúaðir með spýtum, suma er hægt að hoppa yfir, betra að vera vel skóaður. Mjög gott útsýni yfir Siglufjörð frá rústum. Minnisvarði í vegg og grillaðstaða í rústum.

EvangerrústirIMG-20120728-00072

 

 

Til Héðinsfjarðar um Hestskarð

Til Héðinsfjarðar liggja tvær leiðir fótgangandi manna frá Siglufirði: Hólsskarð(620 m) austur af Hólsdalsbotni og Hestskarðaustur af Skútudal. Þótt Hestskarð (590 m) sé bratt og allerfitt yfirferðar þá er það stysta gönguleiðin til Héðinsfjarðar. Gera má ráð fyrir 3-5 klst. gangi þessa leið.

HestskarðNIður í Héðinsfjörð

Ljósmyndir: Magnús Rúnar Magnússon

Frá Héðinsfirði eru margar gönguleiðir. Leiðirnar til Siglufjarðar eru hér að ofan. Um þrjár fjallaleiðir er hins vegar um að ræða ef ganga á til Ólafsfjarðar, allar um og yfir 600 m háar: Um Víkurdal, um Rauðuskörð (570 m) og niður Árdal. Um Möðruvallaskál (690 m), svokallaðar Fossabrekkur niður í Syðriárdal. Og að síðustu yfir Möðruvallaháls (650 m) fremst í Héðinsfirði og niður í Skeggjabrekkudal. Af þessari leið er hægt að fara um Sandskarð niður í Fljót.

Einnig ætti fólk að reyna komast sjóleiðina. Hún er afar skemmtileg í góðu veðri sérstaklega ef siglt er nálægt Hestinumeða Hvanndalabjargi.

Hvanndalir úr Héðinsfirði

Hvanndalir, eitt afskekktasta byggða ból á Íslandi um aldir, eru norðaustan Héðinsfjarðar , handan Víkurbyrðu (890 m). Til að komast þangað þarf að fara “yfir Byrðuna” eða um Hvanndalaskriður , hinn versta veg. Hvanndalir voru nýttir vegna góðra landkosta fyrir sauðfé, en búseta var þar stopul. Þar hefur margt fátækt almúgafólk leitað frelsis og sjálfstæðis en orðið að flýja þennan harðbýla stað. Skömmu fyrir aldamótin 1900 keypti hreppsnefnd Hvanneyrarhrepps jörðina að Hvanndölum gagngert til að koma í veg fyrir að mannabyggð héldist þar lengur.

Hvanndalsbjarg

Hvanndalir eru þrjú daladrög. Yst er Hvanndalur, út úr honum að sunnan er lítið dalhvolf sem nefnt er Selskál og syðst Sýrdalur sem er grynnstur, aðeins slakki niður á bak við Hvanndalabjörg. Milli Sýrdals og Hvanndals er lágur fjallsrani sem heitir Hádegisfjall og sunnan við Selskál gnæfir hvassbrýndur hamratindur sem heitir Miðdegisfjall eða Miðdegishyrna.

Sýrdalur er lítið dalverpi austur undir Hvanndalabjargi (740 m). Þar vaxa sérstök lífgrös sem eru þeirrar náttúru að þau veita mönnum líf og heilsu. Sagan segir að fyrrum hafi svo rammt kveðið að þessari náttúru að bærinn hafi verið fluttur að Hvanndölum því enginn hafi getað dáið á Ódáinsakri.

Hvanndalir eru mjög einangraður útkjálki. Stopul byggð var þar og flestir sem þar bjuggu voru aðeins fá ár í senn. Var því býli þetta oft í eyði svo árum og áratugum skipti. Árið 1896 keypti hreppsnefnd Hvanneyrarhrepps jörð þessa af bóndanum í Hvanndölum til þess að útiloka mannabyggð þar. Um áratug síðar var jörðin seld bónda í Ólafsfirði. Fyrr á árum notuðu Ólafsfirðingar Hvanndali til heyskapar og var þá legið þar við í tjöldum á meðan á heyskap stóð. Erfitt hefur sennilega oft verið að flytja heyið þaðan en þarna er ákaflega grösugt.

Þar sem Hvanndalir eru fyrir opnu hafi og háir klettabakkar eru framundan þeim er hætta á sjóslysum þar þegar veður breytist snögglega. Enda hafa slys orðið þar, bæði við setningu og lendingu báta. Átakanlegt sjóslys varð í svokölluðum Sýrdalsvogum árið 1783 er þrír bátar fórust þar og af þeim ellefu sjómenn. Var það vegna skyndilegs ofveðurs sem skall á er þeir voru við veiðar undir bjarginu. Þarna er mjög brimasamt ef eitthvað er að veðri. Nú er í Hvanndölum björgunarskýli Slysavarnafélags Íslands, þeim til bjargar sem lenda í hrakningum þarna svo langt frá mannabyggðum.

Siglufjarðarskarð

Siglufjarðarskarð (630 m.) er gengið frá Siglufirði eða að vestan frá Heljartröð skammt norðan Hrauna í Fljótum. Um 15 km. leið eftir gömlum vegi sem yfirleitt er snjóþungur fyrripart sumars. Skammt norðan skarðsins er Illviðrishnjúkur (895 m), annað hæsta fjall við Siglufjörð. Árið 1946 var bílvegur lagður yfir Siglufjarðarskarð. Fram að því höfðu allir meiriháttar flutningar á fólki og vörum farið um sjóleiðina. Mikil samgöngubót var að Skarðsveginum þótt hann væri aðeins nothæfur yfir hásumarið . Reynt er að halda veginum opnum flest sumur. Gera má ráð fyrir 4-6 klst í þessa göngu.

Sigl_skarð_skiltiSumarfrí Julí 2008 040

Ljósmyndir: Jónas Valtýsson & Vigdís Sverrisdóttir

Í Skarðsdal, Siglufjarðarmegin, er skíðasvæði Siglfirðinga og neðst í dalnum er nyrsti skógur á Íslandi, skógrækt Siglfirðinga, gróskumikill og fallegur, og mikið notaður til útivistar.

Skógræktin á Siglufirði

Fossabrekkur frá Ólafsfirði

Lagt að stað upp sunnan við Gunnólfsá og upp með henni fram Syðrárdal og norðan við Syðrárhyrnu.
Gengið eftir dalnum sunnan árinnar fram í botn. Í dalbotni á hægri hönd er Bangsahnjúkur, 890 m; nauðsynlegt er að ganga innarlega í botninn til að sleppa við Bangsaskál.

Þá tekur við bratt skarð og er sveigt upp til norðvesturs. All bratt er niður í Héðinsfjörð þaðan að Möðruvallaskál. Eftir það er greið leið niður í Héðinsfjörðinn að Eyðibýlinu Grundarkoti. Þessi ganga getur tekið um 5 klst.

Bangsahnjúkur Bangsahnjúkur1

Rauðskörð

Gönguleiðin um Rauðskörð er fjölsótt gönguleið frá Ólafsfirði. Gengið er frá Gunnólfsá að norðan, upp frá Ytri Á sem er 2.4 km frá miðbæ Ólafsfjarðar eftir þjóðvegi 803. Þar er beygt til vesturs eftir stikuðum troðningi inn Árdal. Þegar komið er spölkorn inn dalinn greinist áin í tvær kvíslar, Syðriá og Rauðskarðsá. Þar er vaðið yfir þá fyrrnefndu og stikum fylgt áfram upp tunguna á milli ánna.Þægileg ganga þar til skarðið byrjar. Mælt er með að gengið sé vel inn fyrir skarðið og ganga hlíðina til norðurs. Talsverður bratti er upp skarðið. Tvö skörð eru þarna upp, stærra og fremra er Rauðskarðshnjúkur(734.m) og auðveldari leiðin, en hitt skarðið er Loftskarð og er  mun erfiðari leið að fara. Frá skarðinu sést vel til Kleifa og Múlans. Úr Rauðskarði liggur leiðin fyrst niður dálítið dalverpi sem liggur þvert á Víkurdal. Góð ganga er niður í Víkurdal, fyrst niður í skál þar sem stór steinn er og lækur rétt við. Þessum læk á að fylgja niður að eyðibýlinu Vík í Héðinsfirði.

Ganga þessi tekur um 4-5 tíma og er um 9.km frá Ytri Á.

 

Gönguleiðir frá Dalvíkurbyggð

 Klængshólsdalur / Holárdalur

Stutt en stórbrotin leið úr Skíðadal yfir í Hörgárdal. Gengið er frá Klængshóli í Skíðadal, fram að Holá yfir göngubrú, betra þykir að ganga fram dalinn hægra megin. Leiðin liggur á brattann, á 5 km spöl frá hálsinum og upp undir skarðið hækkar landið úr 400 í 1100 m hæð. Þegar komið er fram fyrir miðjan dal er maður á móts við Dýjafjallshnjúk, 1445 m háan, hæsta hnjúk við utanverðan Eyjafjörð.  Þegar komið er í skarðið, sem er þröngt og í 1185 m hæð blasir við Skriðdalurinn, kenndur við Skriðu í Hörgárdal.  Þessi leið var talsvert mikið farin af Skíðdælingum áður fyrr, og var styðsta leið þeirra til Akureyrar.

Áætlaður göngutími: 8 klst.

 Heljardalsheiði

Leið og vegalengd: Atlastaðir Svarfaðardal – Heljardalsheiði – Kolbeinsdalur – Hálsgróf – Hólar Hjaltadal: 27 km. Mesta hæð: 860 m. Göngutími 9-11 klst.

Rudd jeppaslóð er yfir heiðina  og er hún ófær bílum. Lagt er upp frá Atlastöðum í Svarfaðardal og gengið er undir Hnjótafjallinu. Framundan blasir heiðin við og liðast slóðin upp hlíðina en á vinstri hönd er falleg fossasyrpa í Svarfaðardalsánni. Koma þá í ljós stórar vörður og leifar af símalínunni, en hún var sett í jörð 1938 á svæðinu frá Kambagili að Prestsbrekku handan heiðar. Efst á heiðinni blasir Stóravarða við en um 100 m austan við vörðuna eru hleðslur sem taldar eru af fornu sæluhúsi. Komast má á Hákambaleið sem liggur í Fljót og Ólafsfjörð með því að ganga í norðvestur frá Stóruvörðu og er þá komið á tind yfir Hnjótakverkinni sem nefnist Vörðufjall.

Heljardalurinn blasir þá við. Í vestri stendur fjall upp úr snjónum, Deilir, sem er við botn Deildardals, umvafinn Deildardalsjökli.

Skarðið sunnan Deilis nefnist Afglapaskarð og ef menn á leið á Hákambaleið eða í Svarfaðardal fóru þar lentu þeir niður í Deildardal. Ef menn hins vegar eru á leið á Hákamba úr Heljardal er óþarfi að fara upp að Stóruvörðu heldur er stefnan tekin norðan við Deili.

Gengið er niður Heljardal niður í Kolbeinsdal. Farið er beint niður Heljarbrekkur, framhjá gömlum réttarbrotum á eyrunum og vaða Kolbeinsdalsána, sem oft er mikið vatnsfall. Er þá komið á jeppaveg út Kolbeinsdal framhjá eyðibýlinu Fjalli þar sem nú eru sumarhús, yfir Hálsgróf í Hjaltadal. Gangi menn þessa leið velja þeir annaðhvort veginn til Hóla eða gönguleiðina.

Klaufabrekkur

Þegar gengið er úr Svarfaðardal, yfir á Lágheiði er gengið um Klaufaskarð. Leiðin liggur frá Klaufabrekkum í Svarfaðardal fram Klaufabrekkudal í Klaufaskarð og niður Klaufabrekkudal Ólafsfjarðarmeginn og niður á miðja Lágheiði. Komið er niður þar sem lítið skýli stendur skammt frá veginum yfir Lágheiðina. Leiðin er auðrötuð í bjartviðri en fara þarf varlega í þoku.
Áætluð lengd ferðar: 5 – 6 tímar

Reykjaheiði

Reykjaheiði var annar fjölfarnasti fjallvegur úr Svarfaðardal. Farið er frá skíðaskálanum í Böggvisstaðafjalli, og haldið fram Böggvisstaðadalinn sem heitir Upsadalur handan árinnar. Framarlega á Upsadal gengur lítill þverdalur eða skál inn í fjallið, nefndur Grímudalur. Þar nærri liggur gatan yfir ána og taka þar við brattar brekkur. Gatan liggur þar upp í krákustíg og er leiðin vörðuð allt upp í skarð. Skarðið er í um 1000 m hæð yfir sjó. Úr skarðinu sér niður dalverpi sem nefnist Heiðardalur og áfram niður í botn Ólafsfjarðar. Komið er niður að eyðibýlinu Reykjum sem stendur undir rótum Lágheiðarinnar.

Áætluð lengd ferðar: 7 klst

Grímubrekkur

Grímubrekkur er önnur leið þegar farið er milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar.

Leiðin er ekki erfið og tekur um 3 til 5 tíma eftir gönguhraða. Gengið er upp Upsadal og sveigt upp Grímubrekkur í Grímudal. Þegar staðið er í skarðinu blasir við Kálfsárdalur og einnig sér út Eyjafjörðinn. Á hægri hönd er Einstakafjall 1006m og sunnan þess er Reykjaheiði. Auðvelt er að ganga eggjar til norðurs og er þá komið í Drangaskarð. Leiðin niður í Kálfsárdal er greið og koma menn niður að bænum Kálfsá, innarlega í Ólafsfirði.

Drangar

Að “fara Dranga” var á árum áður fjölfarin leið milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar. Gönguleiðin er í léttara lagi og er göngutími 3-5 tímar eftir gönguhraða.  Farið er upp frá bænum Karlsá norðan Dalvíkur. Gengið upp Karlsárdal upp í skarð sem er í um 1000 m hæð yfir sjávarmáli. Þegar staðið er í skarðinu sér til Ólafsfjarðar og í hina áttina niður til Eyjafjarðar. Gengið er niður Burstabrekkudal og þaðan til Ólafsfjarðar.

Áætluð lengd ferðar: 3-5 klst

Þorvaldsdalur

Þorvaldsdalur á Árskógsströnd er fallegur dalur og vinsælt að ganga eða hlaupa hann enda á milli en dalurinn er opinn í báða enda. Þorvaldsdalur byrjar upp frá Árskógi að norðan og opnast hjá Dagverðartungu í Hörgárdal að sunnan. Gangan hefst við Árskógarskóla og gott að fylgja jeppaslóða sem nær um það bil 5 km inn dalinn.  Dalurinn er um 28 kílómetra langur og með háum fjöllum á beggja vegna og er fólki ráðlagt að hafa Hrafnagilsá sér á hægri hönd og hafa Vatnshlíðarfjall sér á vinstri hönd við gönguna suður dalinn. Þorvaldsdalur er lágur og grösugur að norðan en um vatnaskilin sem eru sunnarlega er hann hrjóstrugur og er þá kominn í um 500m. Hæð. Skemmtileg gönguleið við allra hæfi, göngufólk er þó ráðlagt að vera vel skóað þar sem móar, mýrlendi og læki er að finna á þessari leið.
Áætluð lengd ferðar: u.þ.b 5 klst.

Skollaskál og austanverður Siglufjörður

Fyrsti áningarstaður er Álfhóll á Hólsárbakka við flugstöðina.  Á Álfhóli er útsýnisskífa með helstu örnefnum í fjallahring Siglufjarðar. Skammt austar, eða um 250 m, eru tóftir Saurbæjar sem fór í eyði á fyrrihluta 20. aldar.

Næsti áningarstaður er Staðarhólsfjara við rústir fyrstu síldarverksmiðju á Íslandi sem reist var árið 1911 og kennd við norska eigendur sína, Evangersbræður. Hin miklu mannvirki, bryggjur, þrær og 5 hús sópuðust burtu í ofboðslegu snjóflóði í aprílmánuði 1919.

Þriðji hluti göngunnar er upp í Skollaskál austur af Staðarhóli. Skollaskál er stórgrýtt og gróðurlítil. Kalt og tært vatn sprettur undan grjóturð og rennur hægt milli mosagróinna mela. Hnjúkarnir háu sem hleypa af stað snjóflóðum flesta vetur gnæfa þar yfir. Staðarhólshnjúkur (760 m) og Hestskarðshnjúkur (855 m). Frábært útsýni er yfir Siglufjörð úr Skollaskál.

Þess má sjá glögg merki að mikið framhlaup varð sunnan við Skollaskál í febrúar 1830. Grjót og jarðvegur steyptist yfir bæinn Ráeyri. Íbúarnir hlupu undan og björguðust nema gömul kona sem sneri við til að sækja kisu sína og varð undir skriðunni.

Þægilegt getur verið að að láta undan síga suður og niður úr skálinni og ganga suður í Skútudal áður en haldið er heimleiðis.Yfir Skútudal í suðri rís hin mikilfenglega Hólshyrna (Álfhyrna 687 m), eftirlætisfjall flestra Siglfirðinga.

Tími: 5-7 klst.
Vegalengd: 7 – 8 km.