Hákon Leó Hilmarsson kom í viðtal til okkar á dögunum og svaraði nokkrum spurningum. Hákon er uppalinn hjá KF og lék upp yngri flokkana og byrjaði ungur að koma við sögu í Lengjubikar og Kjarnafæðismótinu með meistaraflokki KF, en þetta var vorið 2014. Hann fékk svo fá tækifæri með liðinu um sumarið og undir lok sumars 2014 gekk hann til liðs við nágrannana á Dalvík og lék tvo leiki með meistaraflokki Dalvíkur/Reynis en skipti aftur yfir í KF um haustið. Árið 2015 var svipað, hann fékk tækifæri með liðinu í Lengjubikarnum um vorið og lék svo með 2. flokki KF um sumarið en náði þó einum leik með meistaraflokki um haustið. Á næsta tímabili lét hann meira að sér kveða og lék 14 leiki fyrir KF og var kominn með sæti í byrjunarliðinu. Eftir sumarið 2016 hefur hann leikið flesta leiki með liðinu og hefur núna spilað 75 leiki í deild og bikar og skorað 2 mörk.
Hákon þykir harður í horn að taka á vellinum og hefur hann náð sér í 40 gul spjöld frá árinu 2013 og eitt rautt spjald. Inni í þessari tölu eru leikir í deild og bikar, Lengjubikar, Kjarnafæðismóti og nokkrum leikjum í 2. flokki. Milli æfinga og leikja vinnur Hákon hjá Aðalbakarí á Siglufirði sem bakari. Hákon var einnig í viðtali hjá okkur í fyrra, og má lesa það hér á vefnum.
VIÐTAL
1. Hvað var uppleggið fyrir mótið og voru áherslubreytingar frá þjálfara?
Uppleggið var aðallega að vera vel skipulagðir og byrja alla leiki að krafti og ná inn marki sem fyrst. Ef við lítum á síðasta tímabil þá vorum við ansi oft að fá á okkur mark í byrjun leiks. En nú vorum við miklu betur skipulagðri og náðum að pressa liðin vel.
2. Hópurinn hefur verið sterkur í sumar margir nýir leikmenn komu í vor, hvernig hefur baráttan verið um fast sæti í liðinu?
Rétt er það, hópurinn í sumar var rosalega sterkur og allar stöður vel mannaðar. Það nánast skipti ekki máli þótt einn leikamður missti úr leik, það kom alltaf maður í manns stað og það er lykillinn að góðu gengi í sumar. Við höfum margir verið að spila saman undanfarin þrjú ár og nú er þessi óslípaði demantur orðinn að fallegum demant.
3. Var einhver leikur í sumar sem þér fannst vera eftirminnilegur, eða eitthvað atvik í leik?
Það eru margir leikir sem koma upp í hausinn á mér. Það voru margir sigrar svo ótrúlega sætir t.d. báðir leikirnir gegn Sindra þar sem við náðum sigurmarki á lokasekúndum leiksins. Sigurinn gegn Kórdrengjum og Hött/Huginn á útivelli. En ef ég ætti að velja einn þá er það Reynir Sandgerði heima þegar við tryggjum okkur upp um deild, það er tilfinning sem er æðisleg.
Atvik í leik hjá mér persónulega er ekkert skemmtilegt en sjálfsmarkið mitt gegn Vængjum var líklega eitt af mörkum sumarsins, ég get hlegið af því núna en vikan eftir markið var ansi erfið. En það er bara eins og það er.
4. Hvernig gengur að stilla saman atvinnu(Aðalbakarí) og knattspyrnuferlinum varðandi æfingar og leiki ?
Það gengur eins og í sögu. Margir segja að þetta sé galinn vinnutími að byrja 04:00 á nóttunni en þetta kemst í vana eins og allt annað. Ég klára vinnu yfirleitt í hádeginu og legg mig eftir það og svo æfing.
5. Hvaða væntingar hefur þú til næsta tímabils í 2. deild karla, en KF spilaði þar síðast 2016 ?
Bara hóflegar, við verðum nýliðar í deildinni og margir munu líta á okkur sem fallbyssufóður. Við munum bara halda áfram að spila okkar leik og fyrsta markmið er að sjálfsögðu að festa okkur í sessi í deildinni og vinna út frá því.
6. Gervigras er komið á teikniborðið hjá Fjallabyggð, hverju mun það skipta fyrir félag eins og KF sem hefur haft takmarkaða æfingaaðstöðu yfir veturinn?
Gervigras mun breyta öllu fyrir félagið, bæði fyrir meistaraflokk og yngri flokkana. Við erum eins og þú segir með mjög takmarkaða æfingaaðstöðu og þurfum í meistaraflokki t.d. að keyra til Akureyrar 6 mánuði á ári til þess að æfa við boðlegar aðstæður. Fótboltaiðkun mun bætast Fjallabyggð með gervigrasi er ég alveg klár á, vegna þess að þá geta bæði meistaraflokkur og yngri flokkar KF æft í okkar heimabæ við almennilegar aðstæður og verður áhuginn og viljinn að bæta sig miklu meiri. Fótbolti er vinsælasta íþróttin og með þessum aðstæðum í dag mun fótboltinn deyja hægt og rólega í Fjallabyggð sem væri algjör synd fyrir staði eins og Siglufjörð og Ólafsfjörð sem hafa átt sögufræg lið í gegnum tíðina.
7. Hversu mikilvægur hefur Alexander Már verið fyrir lið í sumar? Var mikil pressa á honum að skora þegar leið á mótið?
Alexander hefur reynst okkur mjög vel eins og tölur segja til um. 28 mörk í 22. leikjum segir sig eiginlega bara sjálft. Okkur hefur vantað alvöru sóknarmann þarna frammi undanfarin ár og hann hefur kannski verið týnda púsluspilið. Pressan á hann var ekkert svakaleg held ég. Það vita allir hvað hann getur í fótbolta og vissu allir hverju mátti búast við og skilaði hann því bara.
8. Liðið var nokkuð heppið með rauð spjöld á Íslandsmótinu, en liðið fékk aðeins tvö bein rauð spjöld (Vitor fékk tvö gul og þar með rautt í einum leik). Voru þið að spila af meiri skynsemi í nágvígum eða spilaði einhver heppni með liðinu í sumar?
Engin heppni myndi ég segja, frekar óheppni. Við fengum reyndar 3 rauð spjöld í sumar og voru þetta allt rosalega mikil vafa atriði og frekar illa vegið að okkur. Við spilum fast og látum finna fyrir okkur með skynsemi og því engin heppni með fá ekki fleiri rauð spjöld heldur bara vel spilað hjá okkur.