Jón Valgeir Baldursson

Jón Valgeir Baldursson er 45 ára Ólafsfirðingur og eigandi JVB-Pípulagna ehf. Hann er giftur Hrönn Gylfadóttur, og eiga þau þrjú börn, Ágúst Örn, Ívan Darra og Sunnu Karen. Fyrirtækið er innan fjölskyldurnnar og hefur sonur Jóns starfað með honum og stundar nú nám við pípulagnir. Þá hefur eiginkona hans unnið skrifstofustörf fyrir fyrirtækið. Á sínum yngri árum stundaði Jón skíðamennsku, og einnig hefur fjölskyldan hans verið dugleg á skíðum.

Jón stundaði á yngri árum nám við Verkmenntaskólann á Akureyri og við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Jón var háseti á frystitogaranum Sigurbjörg ÓF-1 í 16 ár en ákvað þá að skella sér í nám í pípulögnum og loks í meistaranám. Hann vann við sjúkraflutninga í Ólafsfirði og hjá Slökkviliði Fjallabyggðar og hefur verið baráttumaður fyrir því að halda sjúkrabíl í bænum. Þá hefur hann unnið fyrir Vélsmiðju Ólafsfjarðar, en ákvað svo að hefja eigin rekstur. Jón var á lista Framsóknarmanna í sveitastjórnarkosningum í Fjallabyggð árið 2014. Hann var svo Oddviti H-listans fyrir Heildina árið 2018 og hlaut næstflest atkvæði kjörinna fulltrúa. Við fengum Jón í viðtal hér á vefnum og spurðum hann nokkura spurninga.

Viðtal við Jón Valgeir hjá JVB-Pípulögnum

 

  1. Hvenær var fyrirtækið JVB-Pípulagnir stofnað og hver er saga þess?

JVB-Pípulagnir ehf. var stofnað ágústmánuði 2015.  Sagan er stutt, ég var starfsmaður á Vélsmiðju Ólafsfjarðar þegar við hjónin ákváðum í sameiningu að hætta okkur út í það að stofna okkar eigið fyrirtæki.  Ég er pípulagningameistari að mennt. Verkefnastaða fyrirtækisins varð fljótlega mjög góð.  Lengst framan af var ég eini starfsmaður fyrirtækisins, en hef verið að fá í vinnu til mín nokkra góða félaga mína, sem hafa dottið inn í vinnu í smá tíma í senn. Elsti sonur minn ákvað að prófa að koma og prófa að vinna með mér og endaði á því að fara í pípulagninganámið og er að að fara að útskrifast núna eftir þessa önn og ætlar þá að koma og vinna hjá fyrirtækinu.

  1. Hvað starfa margir hjá fyrirtækinu, og eru ráðnir inn sumarstarfsmenn ?

Við erum tveir sem störfum að jafnaði hjá fyrirtækinu, við erum ekki að ráða inn sumarstarfsmenn sérstaklega en höfum aðila sem við getum hóað í þegar okkur vantar fleiri hendur til vinnu. Eiginkonan byrjaði nýlega að vinna á skrifstofunni heima fyrir.

  1. Eru einhver eftirminnileg, stór eða flókin verkefni sem JVB hefur unnið síðustu árin?

Á þessum stutta tíma sem fyrirtækið hefur verið starfrækt þá höfum við tekist á við nokkur þokkalega stór og krefjandi verkefni.

Á meðan ég var að vinna á Vélsmiðju Ólafsfjarðar þá útskrifaðist ég sem pípulagningameistari og fyrsta verkefnið sem ég tók ég að mér að vera pípulagningameistari yfir var Sigló Hótel og vorum við að vinna í því þegar ég tók þá ákvörðun að stofna eigið fyrirtæki og kom það verkefni með mér yfir í mitt fyrirtæki og varð endaspretturinn á því eitt af fyrstu verkefnum JVB-Pípulagna.

Við lögðum í viðbygginguna á leikskólanum á Siglufirði, viðbygginguna í líkamsræktinni í Ólafsfirði, viðbygginguna á Menntaskólanum á Tröllaskaga, við smíðuðum sprinklerkerfi í Róaldsbrakka í Síldarminjasafninu á Siglufirði,  við smíðuðum hönnuðum hluta af lagnakerfinu í rúmlega 800 fm gróðurhús sem verið var að reisa á Laugarmýri í Skagafirði ásamt því að tengja dælustöð fyrir borholu sem var boruð til ná í heitt vatn fyrir gróðurhúsið. Núna er eitt af verkefnunum okkar 2000 fm fjós sem verið er að reisa á Syðri Hofdölum í Skagafirði.  Annað eftirminnilegt verkefni var vinna við er Kaffihúsi Gísla, Eiríks og Helga á Dalvík (Kaffihús Bakkabræðra). Það er sennilegasta ein magnaðasta verkefni sem ég hef tekist á við, þar mátti helst ekki leggja lagnirnar beinar, eða eftir bókinni, allt varð að vera í anda þeirra Bakkabræðra, sérstaklega í kjallaranum og á efri hæðinni. Það voru ekki keypt blöndunartæki á efri hæðina, heldur útbjó ég allt varðandi neysluvatnið á verkstæðinu mínu, vaskurinn á barnum er gamall bali og vaskinn á klósettinu fékk ég Vélsmiðju Ólafsfjarðar til að útbúa.

 

  1. Eru einhver verkefni eða þjónusta sem er vinsælust hjá ykkur og mikið beðið um?

Fyrirtækið vinnur öll almenn verkefni tengdum pípulagningaþjónustu og er því ekki hægt að segja að einhver verkefni séu vinsælli en önnur, heldur tökumst við á við þau verkefni sem við erum beðin um að takast á við. Hinsvegar þá réðumst við í það núna í vor að fjárfesta í búnaði til að fræsa niður gólfhitalagnir í steingólf, og  getum boðið uppá allann pakkann í gólfhitalögnum. Það er farið að vera töluverð eftirspurn eftir þeirri vinnu.

  1. Vinnið þið mikið fyrir heimamenn , eða er ykkar sterkasti markaður nær Akureyri?

Við vinnum mikið fyrir heimamenn, en við vinnum einnig mikið utan heimabyggðarinnar, verkefnin okkar dreifast á nokkuð stórt svæði, þ.e. inni í Eyjafirði, úti í Hrísey,  á Akureyri, Dalvík, Fjallabyggð, Fljótum  og Skagafirði, höfum verið að takast á við þokkalega stór verkefni í Skagafirði.

  1. Er mikil samkeppni um verkefni í pípulögnum í Fjallabyggð?

Eins og staðan hjá okkur allavega er í dag, þá er varla hægt að halda því fram að það sé mikil samkeppni að okkar hálfu þar sem við erum með töluvert hátt hlutfall verkefna okkar utan Fjallabyggðar, en ég held að eingöngu hér í Fjallabyggð séu ekki næg verkefni handa öllum pípurum.

  1. Hefur þú tölu á því hversu margir faglærðir píparar starfa í Fjallabyggð?

Ég held að við séum 3 faglærðir eins og staðan er í dag, einn meistari og tveir sveinar, ég veit að það er einn að læra til sveins sem bætist þá við flóruna og svo er annar af sveinunum að læra til meistara.

  1. Eitthvað að lokum sem JVB vill koma á framfæri?

Við viljum þakka kærlega fyrir þær frábæru viðtökur sem við höfum fengið frá stofnun fyrirtækisins.

 

Viðtal frá nóvember 2018.

Ljósmyndir úr einkasafni Jóns V. Baldurssonar.