Alexander Már Þorláksson KF – 2019

Við fengum markakónginn Alexander Má Þorláksson hjá Knattspyrnufélagi Fjallabyggðar í viðtal og spurðum hann nokkurra spurninga. Alexander er uppalin á Akranesi og lék með yngri flokkum ÍA en hefur svo spilað með nokkrum liðum í meistaraflokki eins og Fram, Hetti, Kára og KF, auk nokkra leikja með meistaraflokki ÍA.  Alexander á tvíburabróður sem heitir Indriði Áki en hann lék með Kára á Akranesi í sumar.

Alexander kom fyrst til KF árið 2015 þegar liðið lék í 2. deildinni og skoraði hann þá 18 mörk í tuttugu og einum leik fyrir liðið, en kom þá á lánssamningi frá Fram. Hann kom svo aftur í KF í apríl 2019, skömmu fyrir Íslandsmótið og gerði nú félagskipti úr ÍA. Alexander náði að leika 22 leiki í sumar fyrir KF í deild og bikar og skoraði 28 mörk í deildinni og var markahæsti maður 3. deildar. Hann hefur alls leikið 43 leiki með KF og skorað 46 mörk. Frábær árangur það hjá honum sem verður erfitt að toppa.

VIÐTALIÐ

1. Hvað varð til þess að þú samdir aftur við KF í vor?   Ég þekki marga stráka í liðinu og hef haldið sambandi við þá alveg síðan að ég spilaði síðast fyrir KF í 2.deild. Ég var útí Danmörku með Helgu kærustunni minni í vetur og við ákváðum eiginlega bara í sameiningu að vera á Siglufirði þetta sumar en hún er einmitt þaðan. Ég á ættir að rekja á Ólafsfjörð þannig að þetta var auðveld ákvörðun.
 
2. Varstu með eitthvað persónulegt markmið varðandi fjölda marka sem þú vildir ná í sumar og áttir þú von á því að ná svona mörgum mörkum fyrir KF ?  Ég kom seint í undirbúninginn og mætti eiginlega bara beint í bikarleik við Magna þannig að eina sem ég hugsaði út í var að koma mér í stand fyrir tímabilið. Ég setti mér ekki fyrir nákvæma tölu en fannst ég auðveldlega geta skorað meira en þegar ég var hér síðast þar sem ég tel mig hafa þroskast og bætt minn leik síðan þá. Ég bjóst kannski ekki við 28 mörkum en við pressuðum hátt og unnum boltann oft ofarlega á vellinum sem útskýrir af hverju við skoruðum svona mikið þetta sumar.
 
3. Var einhver leikur í sumar sem þér fannst vera eftirminnilegur, eða eitthvað atvik í leik?  Það var virkilega sterkt að klára Kórdrengi á útivelli en þeir eru með frábært lið. Það voru svo nokkur eftirminnileg atriði í seinni leiknum gegn Vænjum Júpíters þegar að Dóri (markmaður) fær rautt á furðulegan hátt og Andri Snær þurfti að skella sér í markið.
 
4. Hvaða atvinnu eða nám stundar þú með knattspyrnuferlinum ? Ég er í kennslufræði í HÍ og í sumar var ég flokkstjóri, vallarstarfsmaður, þjálfari og tók vaktir hjá Sundlauginni í Fjallabyggð.
 
5. Hvaða væntingar hefur þú til næsta tímabils í 2. deild karla, en KF spilaði þar síðast 2014 ?  Ég vona svo innilega að allir ungu strákarnir verði áfram því að þeir stóðu sig frábærlega í sumar og eru kjarninn í þessu liði. Ef liðið á að ná góðum árangri á næsta tímabili þarf að bæta í og sækja nokkra reynda og öfluga leikmenn til viðbótar.
 
6. Gervigras er komið á teikniborðið hjá Fjallabyggð, hverju mun það skipta fyrir félag eins og KF sem hefur haft takmarkaða æfingaaðstöðu yfir veturinn?  Ég held að það væri frábært að fá gervigras þótt ég sé ekki sammála því að setja það á aðalvöllinn. Það er nauðsynlegt fyrir iðkendur að þurfa ekki að fara til Akureyrar til þess að æfa á veturna.
 
7. Þú hefur leikið fyrir mörg félög, er mikill munur á að leika fyrir landsbyggðarlið en lið í Reykjavík ? (Aðstaða, þjálfun, umgjörð, stuðningsmenn). Munurinn liggur aðallega á milli deilda, því betri deild því betri aðstaða og umgjörð, hefur kannski ekkert að gera með Reykjavík eða landsbyggðina.
 
8. Liðið var nokkuð heppið með rauð spjöld á Íslandsmótinu, en liðið fékk aðeins tvö rauð spjöld. Voru þið að spila af meiri skynsemi í nágvígum eða spilaði einhver heppni með liðinu í sumar? Þegar að það gengur vel þá vill er minni pirringur og allir vilja spila næsta leik þannig að það gæti hafa haft smá áhrif. Það hjálpaði líka að Hákon Leó var prúður í sumar en hann hefur átt það til að taka eina af gamla skólanum hér og þar. 
Ljósmynd: Guðný Ágústsdóttir
Ljósmynd: Guðný Ágústsdóttir