Jólaviðtalið var nýr liður á síðunni í fyrra, og nú verður þráðurinn tekinn upp aftur. Ritstjóri síðunnar hafið samband við nokkra einstaklinga í Fjallabyggð í desember og spurði þá spurninga. Næstu daga og vikur munu þessi viðtöl birtast hér á síðunni. Öll jólaviðtölin má lesa hér.
Fyrsta jólaviðtalið er við hana Hrönn Hafþórsdóttur sem starfar hjá Fjallabyggð sem forstöðumaður Bóka- og héraðsskjalasafns. Hrönn er tvíburi og starfar systir hennar einnig hjá Fjallabyggð, en við birtum síðar viðtal við hana. Hrönn hefur starfað hjá Fjallabyggð síðan 2014. Hún er fædd og uppalin á Siglufirði, fermdist í Siglufjarðarkirkju árið 1978 og flutti að heiman 21 árs en rúmum 30 árum síðar flutti hún aftur til Fjallabyggðar. Hún bjó m.a. í Hafnarfirði og starfaði hjá Bókasafni Hafnarfjarðar og var þar deildarstjóri upplýsingaþjónustu og hafði umsjón með bókhaldi. Hrönn stundaði nám við Flensborgarskólann og síðar við Háskóla Íslands.
Jólaviðtalið – Hrönn Hafþórsdóttir
Hvað finnst þér best við jólin?
Rólegheitin og maturinn.
Hvað kemur þér í jólaskap?
Falleg jólalög.
Hvað borðar þú á jólunum?
Eftir að börnin urðu fullorðin og þorandi að breyta til – Sjávarréttasúpu a la ég, Nautalund Wellington og einhvern góðan eftirrétt.
Hvað er uppáhalds jólalagið þitt og með hvaða söngvara?
Öll jólalög Baggalúts ef ég er að jólastússast en Heims um ból ef hátíðleikinn á að ráða.
Ferðu í kirkju um jólin eða heimsækir þú kirkjugarðinn?
Já, ég fer í kirkju en eftir að ég flutti norður úr Hafnarfirðinum hef ég ekki farið í kirkjugarðinn á jólunum.
Hvernig jólatré ertu með?
Lifandi tré keypt hjá henni Báru í Býflugan og blómið á Akureyri.
Horfir þú á einhverja sérstaka jólamynd til að komast í jólaskap?
Já, alltaf, Trölli stal jólunum.
Verslar þú jólagjafir í heimabyggð, Akureyri, Reykjavík eða netinu?
Öllum þessum stöðum. 😊
Ferðu á jólatónleika ?
Já, hef reynt það, tilheyrir því að komast í jólaskapið.
Ferðu á brennu um áramótin?
Nei ekki eftir að börnin urðu stór.