Andri Snær Sævarsson hjá KF – 2019

Andri Snær Sævarsson var hjá okkur í viðtali í vikunni. Hann hefur leikið undanfarin tvö tímabil sem lánsmaður hjá Knattspyrnufélagi Fjallabyggðar en er á samning hjá KA, sem rennur út í lok október 2019 samkvæmt vef KSÍ. Andri Snær hefur leikið 36 leiki í deild og bikar fyrir KF frá árinu 2018, og hefur náð að skora 3 mörk. Hann er fæddur árið 1998 og hefur staðið sig mjög vel hjá KF og oftar en ekki verið valinn í byrjunarliðið. Hann hefur leikið í treyju númer 6 á tímabilinu og fengið stærra hlutverk, en í fyrra var hann í treyju númer 25 og var í baráttu um byrjunarliðssæti.
Andri Snær er uppalinn hjá KA og lék upp yngri flokkana hjá félaginu.  Andri endaði tímabilið á bikar þegar hann fékk Nikulásarbikarinn á lokahófi KF en bikarinn er veittur árlega hjá KF fyrir bestu framfarir.

VIÐTAL

1. Hvernig hefur þér líkað að spila með KF síðastliðin tvö tímabil sem lánsmaður? Mér hefur líkað gríðarlega vel að spila með KF síðustu tvö tímabil og er ég hrikalega ánægður að hafa tekið þá ákvörðun fyrir síðasta tímabil að fara á lán til KF. Heimastrákarnir í liðinu hafa tekið gríðarlega vel á móti mér og hinum utanbæjarstrákunum og við erum allir mjög góðir félagar. Einnig hefur knattspyrnustjórn KF reynst mér vel og eiga þau öll hrós skilið fyrir alla þá vinnu sem þau leggja í þetta, sem og aðrir sjálfboðaliðar sem vinna fyrir klúbbinn. Þessi tvö ár hafa verið ótrúlega skemmtileg og vil ég þakka öllum fjallabyggðingum fyrir stuðninginn í sumar 💙
 
2. Varstu með eitthvað persónulegt markmið fyrir tímabilið?  Mitt persónulega markmið fyrir tímabilið var einfaldlega að fá á mig færri mörk að meðaltali í leik í deildinni en í fyrra. Í fyrra fengum við á okkur 21 mark í 18 leikjum (1,17 mörk í leik) en í ár 26 mörk í 22 leikjum (1,18 mörk í leik) svo markmiðinu var ekki alveg náð en það munaði ekki miklu. Einnig var ég með það markmið fyrir tímabilið að ná að troða inn mínu fyrsta marki fyrir KF, sem gekk.
 
3. Var einhver leikur í sumar sem þér fannst vera eftirminnilegur, eða eitthvað atvik í leik? Báðir leikirnir gegn Sindra voru mjög eftirminnilegir en í báðum leikjunum skoruðum við sigurmarkið seint í uppbótartíma.
 
4. Hvaða atvinnu/nám stundar þú með knattspyrnuferlinum ?  Er í fjármálaverkfræði við Háskólann í Reykjavík.
 
5. Þú ert á samningi hjá KA sem er að renna út, er komið á hreint hvar þú spilar á næsta tímabili? Nei það er ekkert komið á hreint, en eins og ég segi þá líkar mér mjög vel að spila á Ólafsfirði og vonandi verð ég þar áfram næsta sumar.
 
6. Þú náðir 17 leikjum og þremur mörkum í deildinni í sumar auk sex gulra spjalda. Ertu leikmaður sem spilar fast? Já það virðist vera miðað við spjaldasöfnunina. Birkir sem var með mér í miðverði í sumar er sá harðasti sem hefur spilað á Ólafsfirði síðan Mark Duffield en hann fékk aðeins 3 gul spjöld á meðan ég fékk 6. Ég hlýt því að vera svona grófur hahaha.
 
7. Varstu með fasta búsetu í Fjallabyggð meðan þú lékst sem lánsmaður, eða keyrðir þú frá Akureyri fyrir hverja æfingu?  Nei, ég bjó á Akureyri í sumar og keyrði því alltaf til Ólafsfjarðar á æfingar.
 
Mynd frá Knattspyrnufélag Fjallabyggðar.
Mynd: Kfbolti.is
Screen Shot 2019-09-23 at 22.24.32.png
Mynd: Guðný Ágústsdóttir.
Mynd frá Knattspyrnufélag Fjallabyggðar.
Mynd: Kfbolti.is