Grétar Áki Bergsson KF – 2019

Grétar Áki Bergsson er einn af uppöldum leikmönnum KF og hefur verið undanfarin ár fyrirliði liðsins. Hann hefur leikið 7 tímabil í meistaraflokki KF og hefur spilað 109 leiki í meistaraflokki og skorað 13 mörk. Árið 2013 var hann að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki þegar Lárus Orri Sigurðsson var þjálfari og liðið spilað þá í 1. deildinni sem heitir í dag Inkassó-deildin. Liðið féll úr deildinni þetta ár og vantaði aðeins einn sigur til að halda sér uppi. Lárus hætti með liðið og Dragan Stojanovic þjálfaði liðið í 2. deild  árið 2014 og endaði KF í 7. sæti. Grétar Áki festi sig meira í sessi í byrjunarliðinu og spilaði 13 leiki í deild og bikar. Árið 2015 var KF enn í 2. deild og með nýjan þjálfara, Jón Aðalstein Kristjánsson og lék Grétar Áki 14 leiki í deild og bikar fyrir liðið. Hér var ekki aftur snúið, Grétar Áki var orðinn fastamaður í byrjunarliðinu eftir þessi tvö tímabil með meistaraflokki og var síðar gerður af fyrirliða liðsins. Grétar Áki átti gott tímabil í ár og lék 21 leik í deild og bikar og skoraði 3 mörk.  Grétar Áki var einnig í viðtali hjá okkur árið 2017 sem má lesa hér.

1. Hvað var uppleggið fyrir mótið og voru áherslubreytingar frá þjálfara?

Við vildum spila skemmtilegan bolta og hlaupa yfir andstæðinga okkar eins og við höfum verið að gera síðustu ár. Við vorum grátlega nálægt að fara upp í fyrra þannig við vissum hvað þurfti til að fara upp.

2. Hvað var þitt markmið fyrir Íslandsmótið sem leikmaður og fyrirliði?

Markmiðið mitt var einfaldlega það að leggja mig allan fram í hverjum einasta leik til að hjálpa liðinu að vinna og komast upp.  

3. Var einhver leikur í sumar sem þér fannst vera eftirminnilegur, eða eitthvað atvik í leik?

Mér finnst leikurinn úti gegn Sindra mjög eftirminnilegur þar sem við gátum ekki neitt og lentum undir en náðum síðan að kreista fram sigur á 97’ mínútu með marki frá Ljuba. Svo var auðvitað skemmtilegt atvik gegn Vængjum úti þegar Andri Snær þurfti að fara í markið.

4. Þú hefur spilað sjö tímabil með KF, hefur orðið einhver breyting eða þróun á félaginu á þessum tíma ?

Auðvitað koma alltaf upp einhverjar breytingar. Þjálfaraskipti, breytingar á leikmannahóp og svoleiðis. En mér finnst núna að þetta sé að þróast í góða átt, það er að koma meiri fagmennska inn í þetta hjá okkur og það mun bara hjálpa.

5. Hvaða væntingar hefur þú til næsta tímabils í 2. deild karla, en KF spilaði þar síðast 2016 ?

Ég er bara gríðarlega spenntur fyrir næsta tímabili. Ef við höldum svipuðum hóp og í ár og fáum inn einhverjar styrkingar þá getum við gert fína hluti.

6. Gervigras er komið á teikniborðið hjá Fjallabyggð, hverju mun það skipta fyrir félag eins og KF sem hefur haft takmarkaða æfingaaðstöðu yfir veturinn?

Þetta getur gert helling fyrir KF, bæði fyrir yngri flokkana og meistaraflokk. Þarna kemur völlur sem allir geta nýtt yfir veturinn til þess að æfa sig og verða betri í fótbolta.

7. Hversu mikilvægur hefur Alexander Már verið fyrir lið í sumar? Var mikil pressa á honum að skora þegar leið á mótið?

Alli minn var ótrúlegur í sumar með 28 mörk í 21 leik hahahaha þetta er Cristiano Ronaldo tölfræði. Ég myndi ekki segja að það hafi verið einhver pressa á honum, hann vissi alveg að hann myndi skora.

8. Liðið var nokkuð heppið með rauð spjöld á Íslandsmótinu, en liðið fékk aðeins tvö bein rauð spjöld. Voru þið að spila af meiri skynsemi í nágvígum eða spilaði einhver heppni með liðinu í sumar?

Rauðu spjöldin voru reyndar 3 (innskot: Vitor fékk tvö gul spjöld í einum leik og þar með rautt en gögn KSÍ telja það sem gul spjöld) í sumar en tvö af þeim fannst mér mjög ósanngjörn þannig ég myndi frekar segja að við vorum óheppnir hvað það varðar. En við hugsuðum bara um að spila okkar leik í sumar og það snýst alls ekki um að fá spjöld.

 

Mynd frá Knattspyrnufélag Fjallabyggðar.
Mynd: Kfbolti.is
Mynd: Guðný Ágústsdóttir.