Valur Reykjalín Þrastarson er einn af uppöldu leikmönnum Knattspyrnufélags Fjallabyggðar og þrátt fyrir ungan aldur þá hefur hann leikið 58 leiki í deild og bikar með meistaraflokki og skorað 6 mörk fyrir KF. Fyrstu tveir deildarleikirnir hans fyrir KF komu árið 2015 þegar hann var aðeins 16 ára. Á 17. ári lék hann svo 15 leiki í deild og bikar með KF og skoraði sitt fyrsta mark með meistaraflokki. Árið 2017 átti Valur gott tímabil og lék 19 leiki og skoraði 3 mörk. Eftir það tímabil skipti hann yfir í Val Reykjavík og byrjaði strax að leika með 2. flokki liðsins og fékk tækifæri í fjórum leikjum með meistaraflokki á Reykjavíkurmótinu og Lengjubikarnum. Í framhaldinu lenti Valur í meiðslum og var frá fótbolta í langan tíma þar til hann samdi aftur við KF í lok apríl 2019. Valur byrjaði svo mótið af krafti og skoraði strax í 2. umferð Íslandsmótsins og kom við sögu í öllum deildarleikjum sumars og lék alls 22 leiki og skoraði 2 mörk í deildinni. Valur var í viðtali hjá okkur í vikunni og svaraði nokkrum spurningum.
VIÐTAL
Hvað var uppleggið fyrir mótið og voru áherslubreytingar frá þjálfara? Uppleggið var einfaldlega að hlaupa yfir liðin en svo fannst mér það aðeins breytast eftir 3-4 umferðir þá fórum við að reyna halda boltanum meira og reyna stjórna leikjunum.
Hvernig tilfinning var það að koma aftur í KF í vor og taka þátt í velgengninni í sumar? Það er alltaf gaman að koma aftur heim, strákarnir tóku vel á móti mér og sumarið og úrslitin voru frábær.
Var einhver leikur í sumar sem þér fannst vera eftirminnilegur, eða eitthvað atvik í leik? Skallagrímur heima var geggjaður leikur sem endaði 8-1.
Þú gekkst til liðs við Val Reykjavík í byrjun árs 2018 og lentir í meiðslum. Hvernig var sá tími fyrir þig og var þjálfun og aðstaða á allt öðru stigi ? Sá tími var erfiður þetta tók aðeins lengri tíma en ég vildi en frábært fólk í kringum mig til að hjálpa mér í gegnum þetta, varðandi þjálfun og aðstöðu þá fylgir þetta oftast bara í hvaða deild liðið er í en Valur er með frábæra aðstöðu og fólk í kringum félagið
Hvaða væntingar hefur þú til næsta tímabils í 2. deild karla, en KF spilaði þar síðast 2014 ? Liðið þarf bara að byrja að halda sér í deildinni og svo eftir það er hægt að skoða eitthvað meira, hef samt fulla trú að liðið muni halda sér léttilega í deildinni.
Gervigras er komið á teikniborðið hjá Fjallabyggð, hverjum mun það skipta fyrir félag eins og KF sem hefur haft takmarkaða æfingaaðstöðu yfir veturinn? Gervigras mun skipta sköpum fyrir félag eins og KF, við búum á Íslandi og erum fyrir norðan í þokkabót er grasið lengi að verða gott en ef það væri gervigras þá væri hægt að æfa á Ólafsfirði eitthvað yfir veturinn og vera með góðan völl strax þegar keppinstímabilið byrjar.
Hversu mikilvægur hefur Alexander Már verið fyrir lið í sumar? Var mikil pressa á honum að skora þegar leið á mótið? Alli var nátturulega mjög mikilvægur, það leita öll lið af framherja sem skorar mörk og Alli skorar nú oftast nokkur þegar hann spilar heilt tímabil með liði. Held að það hafi ekki verið mikil utan af komandi pressa en hann setur einhverja pressu á sig sjálfur til að skora mörk.