Fyrsti blakleikur vetrarins á Siglufirði – Umfjöllun í boði Torgsins

Torgið, veitingahús á Siglufirði er aðalstyrktaraðili umfjallanna um Blakfélag Fjallabyggðar í vetur í 1. deild karla og 2. deild kvenna.  Það eru hjónin Daníel Pétur Baldursson matreiðslumaður og Auður Ösp Hlíðdal Magnúsdóttir sem standa að baki veitingastaðnum Torginu á Siglufirði. Torgið er lítill, notalegur og fjölskylduvænn veitingastaður í hjarta Siglufjarðar.

Karlalið BF tók á móti Völsungi/Eflingu í 1. deild karla í blaki í Íþróttahúsinu á Siglufirði. BF var að leika sinn fyrsta leik í deildinni en Völsungur/Efling hafði leikið tvo leiki gegn HK-b á Húsavík fyrir tæpum tveimur vikum, en HK vann báða leikina 0-3. Þá hafði KA-b einnig leikið tvo leiki gegn Hamar-B og einnig unnið þá 0-3. KA og HK hafa því byrjað mótið af krafti. Það var fjölmenni af áhorfendum á þessum leik og talsverður munur fyrir leikmenn að spila með áhorfendur en fyrir tómum sal eins og verið hefur undanfarið ár.

Nokkrar breytingar hafa orðið á liði BF fyrir þessa leiktíð, nýr þjálfari er tekinn við og tveir öflugir leikmenn fóru til KA. Þá komu nokkrir nýjir leikmenn til liðsins og yngri leikmenn einnig í hópnum eins og undanfarin ár. Aðal uppspilari liðsins er horfinn og því hefur Óskar Þórðarson tekið við þeirri stöðu. Þá er kominn nýr erlendur leikmaður, Alois Koudelka, sem leit mjög vel út í þessum fyrsta leik, virðist vera öflugur smassari og með góðar móttökur og uppgjafir.

Það á örugglega eftir að taka nokkra leiki að pússa þetta nýja BF lið saman og fyrir nýjan uppspilara að komast í gott leikform í nýrri stöðu. Ólafur Björnsson, Óskar, Þórarinn og Marcin eru reynslumestu leikmenn liðsins og bera enn uppi leik liðsins, en ungir menn eru að fá mínútur og meiri reynslu, og í þessum leik voru fjölmargar skiptingar í aftari línu liðsins þar sem yngri leikmenn tóku sér stöðu.

Eftir nokkuð jafnar fyrstu mínútur í stöðunni 6-6 þá var ljóst að Völsungur væri með öflugt lið og þeir tóku að síga frammúr og komust í 6-11 og 11-17. Gestirnir héldu áfram að vera með öflugt kantsmass og sterkar uppgjafir en móttaka heimamanna og einstaklingsmistök voru nokkuð sýnileg í þessum fyrsta leik liðsins í vetur. Gestirnir komust í 11-20 og tók þá þjálfari BF leikhlé. Völsungur vann hrinuna nokkuð sannfærandi 18-25, og voru þeir með háværa stuðningsmenn í þessum leik og klöppuðu liðsmenn Völsungs sig hreinlega í gang í upphafi hverrar hrinu.

Völsungur hélt áfram að styrkja sinn leik í annarri hrinu og náðu aftur upp góðu forskoti, þeir komust í 2-6 og 5-10.  Ólafur Björnsson var hættulegur í sókninni hjá BF og skilað jafnan föstum boltum beint í gólfið. Þá var Alois Koudelka sterkur á hinum kantinum og skoraði nokkur góð stig. BF tók leikhlé í stöðunni 8-14 en liðið komst ekki alveg í takt við leikinn í þessari hrinu. Gestirnir komust í 12-19 og 14-21 þegar BF tók sitt annað leikhlé. Völsungur kláraði hrinuna örugglega 16-25 og voru komnir í 0-2.

Í þriðju hrinu var að duga eða drepast fyrir BF og voru þeir um tíma með forystu og skiluðu boltanum vel frá sér. Í stöðunni 5-7 kom góður kafli hjá BF en á sama móti var uppspilið ekki eins gott hjá gestunum í þessari hrinu. BF komst í 12-9 og 14-10, en þá komst Völsungur aftur í takt og skoruðu 9 stig í röð og voru þeir skyndilega komnir með góða forystu, 14-19. BF náði aftur mjög góðum kafla og jöfnuðu leikinn í 21-21 og tóku þá gestirnir leikhlé. Mikil spenna var á þessum lokamínútum og aftur var jafnt 24-24 og fór hrinan í upphækkun. Völsungur átti tvö síðustu stigin og unnu hrinuna 24-26 og leikinn 0-3.

Það var greinilegt að Völsungur voru aðeins lengra komnir í leikæfingu eftir að hafa spilað tvo deildarleiki en BF á sínum fyrsta leik. Nokkrir nýjir leikmenn BF fengu mínútur og tækifæri í þessum leik og ákveðin uppbygging í gangi á þessum vetri. Nýji erlendi leikmaðurinn lofar góðu og virðist vera alhiða leikmaður. Ólafur Björnsson var samt hættulegastur í framlínunni hjá BF og hann átti einn nokkur góð smöss fyrir aftan þriggja metra línuna.

Tamas Kaposi er spilandi þjálfari Völsungs/Eflingar og var hann einn besti maður vallarins í dag. Uppgjafir Völsungs og kantsmössin reyndust BF erfið í þessum leik.

Torgið Siglufirði