Aðsend grein vegna Fræðslustefnu Fjallabyggðar

Það hafa örugglega allir heyrt í fréttum í blöðum og sjónvarpi af svo kallaðri fjórðu iðnbyltingu sem nú heldur innreið sína. En í raun er hún ekkert að koma, hún er komin, ekki öll, en hluti af henni. Störf eru þegar farin að breytast, flytjast til og leggjast af. Framtíðin verður ekki eins og fortíðin. Auðvitað hefur það aldrei verið þannig en þessi fjórða iðnbylting hefur meiri áhrif á framtíðina en við eigum að venjast.
Ein af leiðunum sem við höfum til að undirbúa okkur, og kannski ekki síður börnin okkar, er að huga betur og öðruvísi að menntun þeirra. Við gerum þeim engan greiða með því að stinga höfðinu í sandinn og reyna að hafa þau, skólagöngu þeirra, félagslíf, samskipti og tækninotkun alveg eins og okkar. Þeirra veruleiki verður ekki eins og okkar.

Við teljum að gildandi fræðslustefna skapi aðstæður til þessa. Með öðrum orðum, við teljum að gildandi fræðslustefna skapi aðstæður til að huga betur og öðruvísi að menntun barna í Fjallabyggð. Hún skapi tækifæri á að bæta og breyta menntun þeirra, til að þau séu betur hæf til að takast á við þær breytingar sem eru í vændum. Þetta er ekki eitthvað sem gerist á einum vetri eða tveimur. Þetta er ekki eitthvað sem mun gerast á einum eða tveimur vetrum. Þetta þarf að gerast í takt við þarfir nemenda til framtíðar. Menntun þarf að þróast með tilliti til framtíðarinnar. Við þurfum því að huga að stöðugri þróun.

Í dag segja fræðin okkur að störf framtíðarinnar muni krefjast góðrar skynjunar á umhverfi, samfélagi og samferðamönnum, góðrar aðlögunarhæfni, félagslegrar þekkingar og hæfni, hugmyndaauðgi, samstarfshæfni, rökrænnar hugsunar, þverfaglegrar færni, hæfni til vitsmunalegrar álagstjórnunar, tækni- og margmiðlunarþekkingar og hæfni til samstarfs í sýndarheimi svo eitthvað sé nefnt. Rauði þráðurinn í þessum fræðum er að í framtíðinni þarf fólk að halda áfram að læra stöðugt til að halda í við tæknina og vinna saman að því.

Eitt af markmiðum nýju fræðslustefnunnar er að auka faglegt samstarf kennara, m.a. með sameiginlegri aðstöðu kennara á mismunandi skólastigum. Faglegt samstarf kennara er ein af forsendum þess að framþróun geti orðið í kennslu og námi nemenda. Þetta faglega samstarf þarf einnig að ná þvert á skólastig, þ.e. frá leiksskólastigi til framhaldsskólastigs, í raun yfir í háskólastig ef því er skipta.

Með því að hafa stigin á sömu starfstöð er hægt að hafa námsgögn og kennslubúnað sem hentar hverju stigi á einum stað og með því móti nýtist búnaðurinn betur. Slíkur búnaður er ekki ódýr og ekki sjálfgefið að kennarar séu með innbyggða þekkingu til að nýta hann. Það er því af hinu góða að hægt sé að samnýta hann og kennarar geti unnið saman að því að innleiða hann inn í kennslu. Það er ekki eitthvað sem gerist af sjálfu sér og við, kennarar, eins og aðrir misvel upplagðir til að fara af stað í slíka vinnu. Nú þegar er grunnskólinn farinn að nýta t.d. spjaldtölvur og OSMO á yngsta stigi. Við vonum að á næstu árum bætist ýmis annar búnaður við. Eins má fastlega reikna með að í framtíðinni komi á markaðinn enn fjölbreyttari búnaður. Eins og áður hefur komið fram þá þarf menntunin að þróast í takt við framtíðina. En þar sem miðstigið er ekki allt með sömu starfsstöð þarf að huga að því hvernig best væri að haga þeirri samvinnu.

Á þessu skólaári voru nemendur í 1. bekk í sundi allt skólaárið. Þetta er að skila sér í mikilli framför nemenda yfir allt árið. Það hefur sýnt sig að bakslag kemur framför nemenda í sundi þegar kennsla stendur ekki yfir allt skólaárið eins og t.d. var raunin hjá sumum nemendum í 2.–4. bekk. Það er því von okkar að nú þegar þessir nemendur hafa aðgang að innisundlaug, fái þeir kennslu í sundi yfir allt skólaárið. Sundkennsla okkar Íslendinga í skóla er einstök á heimsmælikvarða og hefur bjargað mörgum mannslífum og nauðsynlegt að hlú að henni þrátt fyrir nýja iðnbyltingu.

Mörg börn hafa myndað sterk og góð tengsl sín á milli þótt þau búi í hvert í sínum bæjarkjarnanum. Undanfarin ár hafa þessi tengsl verið að hluta til að myndast í gegnum íþróttafélögin en með nýrri fræðslustefnu myndast og haldast þessi tengsl í gegnum allt skólaárið. Með meiri fjölda er líklegra að allir finni sér félaga, jafnvel fleiri en einn.

Við teljum að Frístund hafi gengið nokkuð vel eftir að skipulagið og rútínan var komin á hreint. Þátttaka í frístund var nokkuð góð og við vonum að hún verði meiri í framtíðinni. Telja má að íþróttaskóli Glóa hefði ekki orðið að veruleika hefði þessi breyting ekki átt sér stað. Auðvitað er alltaf hægt að gera betur og við reiknum fastlega með því að Frístund eigi eftir að „þroskast og stækka“ og verða fjölbreyttari eftir því sem hún verður eldri og reyndari. Eins teljum við mikilvægt að skipuleggja „frístund“ í Ólafsfirði fyrir nemendur í 6.-10. bekk, þannig að íþróttaæfingar þeirra og tómstundaiðja verði að mestu leyti strax að loknum skóladegi. Þetta er möguleiki með samvinnu grunnskólans og MTR í stundatöflugerð fyrir íþróttahús. Eins er það bara hugmyndaflugið sem getur sett takmörk á allt það sem hægt væri að bjóða upp á í formi tómstundarstarfs fyrir nemendur á efsta stigi grunnskóla og framhaldsskóla, miðað við nemendafjölda, húsakost, aðstöðu og tækjabúnaði sem í boði er. Hér vantar bara upp á framkvæmdina og við skorum á einhvern áhugasaman að fara af stað.

Snillismiðjan sem sett hefur verið upp fyrir í 6.-10. bekk er í takt við þá kennslufæðulegu nálgun sem talin er koma nemendum mest til góða í framtíðinni. Þetta er kennslurými sem sett er upp skv. STEAM-hugmyndafræði og margur skólinn, sérstaklega erlendis, er búinn að vinna með í nokkur ár. STEAM stendur fyrir vísindi, tækni, verkfræði, listir og stærðfræði. Í snillismiðju vinna nemendur á skemmtilegan og skapandi hátt að verkefnum við hæfi.

Í Menntaskólanum á Tröllaskaga er til ýmis tæknibúnaður sem hægt er að samnýta milli efsta stigs grunnskóla og framhaldskóla. Má þar nefna rastara, leiserskera, Ozobot, littleBits, Arduino, Sphero Sprk og Lego Mindstorm, Lego Wedo, VR, 3D prentara, tilraunastofu og ýmislegt fleira. Einnig er til ýmis íþróttabúnaður sem í boði er að samnýta svo sem gönguskíði, fjallaskíði, magavatnsbretti, bandýbúnaður, frjálsíþróttabúnaður og sápuboltavöllur svo eitthvað sé nefnt.

Með því að hafa þessi stig á sama stað er hægt að nýta fjöldann til að búa til áfanga, t.d. í íþróttafögum sem annars hvorugur skólinn hefði getað boðið upp á vegna nemendafæðar því áhugasvið nemenda er mismunandi. Þetta hefur þegar verið gert með ágætum árangri. Síðastliðið haust var boðið upp á blakáfanga þar sem nemendur úr báðum skólum tóku þátt. Kennslan gekk mjög vel og samskipti nemenda til fyrirmyndar. Við teljum þó að gera megi enn betur, t.d. með betur samræmdu skóladagatali. Næsta haust er t.d. boðið upp á áfanga í fimleikum, jóga, bandý og badminton. Og vonandi verður einnig hægt að bjóða upp á fleiri áfanga á vorönn 2019.

Á sama hátt er hægt að búa til og bjóða upp á ýmsa valáfanga á öðrum sviðum sem nemendur í báðum skólum gætu haft áhuga á og nýta og skapa þannig fjölbreytni í námi beggja skólastiga. Áfanga í listum, útivist, forritun, frumkvöðlafræði, matreiðslu, tónlist, smíðum og textíl eða bara hvað það sem nemendum og kennurum dettur í hug. Núverandi námskrá framhaldsskóla og grunnskóla býður upp á slíkt. Síðastliðið haust sóttu nokkrir nemendur grunnskólans valáfanga í vélmennafræði með nemendum í MTR og gekk sá áfangi mjög vel. Í haust standa nemendum t.d. til boða áfangar í forritun, Art-FabLab, útskurði í tré, skapandi íslensku og útivist svo eitthvað sé nefnt. Kennarar úr báðum skólum koma að þessum áföngum, því í báðum skólum er fjöldinn allur af frábærum kennurum með öfluga þekkingu og hugmyndir sem eru tilbúnir í fjölbreytt og skapandi nám til að búa unglingana okkar undir framtíðina.

Einnig er hægt  að samnýta ýmsa aðstöðu. Nemendur í MTR hafa t.d. verið að nýta matreiðslustofuna í grunnskólanum og nú í vor eru nemendur í grunnskólanum að sækja valáfanga í „Leik með vélmenni“ í MTR.

Það er ánægjulegt að Fjallabyggð hefur komið til móts við óskir grunnskólans vegna kaupa á ýmsum kennslugögnum og tölvubúnaði en við minnum á að til að halda í við væntanlega framtíð þarf það að gerast á hverju fjárlagaári.

Inga Eiríksdóttir og Óskar Þórðarson
Höfundar eru kennarar við Menntaskólann í Tröllaskaga og Grunnskóla Fjallabyggðar.