Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Knattspyrnufélag Vesturbæjar mættust á Ólafsfjarðarvelli í dag í 2. deild karla. KV vann fyrri leikinn í sumar 3-0 ,en lið var í þriðja neðsta sæti deildarinnar og KF í neðsta sæti. Leikurinn var mikilvægur fyrir bæði lið í botnbaráttunni. Hinn 19 ára Jakob Auðun Sindrason skoraði fyrir KF á 40. mínútu, sitt annað mark í sumar fyrir meistaraflokk en hann spilar einnig fyrir 2. flokk KF/Völsung, en hann er einn af þessu ungu og efnilegu uppöldu leikmönnum KF. Staðan var 1-0 fyrir heimamenn í hálfleik. Þórður Birgisson kom inn á þegar um 12. mínútur voru eftir af síðari hálfleik en hann hafði þegar fengið gult spjald þegar hann var á bekknum á 35. mínútu. Ekki oft sem leikmenn koma inn og vera þegar komnir með gult spjald. Þórður er einn af þjálfurum liðsins og kemur með gríðarlega reynslu inn í liðið. Svo fór að KF hélt út og náði gríðarlega mikilvægum sigri í deildinni, en þetta var aðeins annar sigur liðsins í sumar. Aðeins 67 áhorfendur voru á leiknum. Leikskýrslu má lesa á vef KSÍ. Næsti leikur KF er útileikur gegn Gróttu næstkomandi laugardag. KF á svo heimaleik gegn Ægi, og útileik gegn Njarðvík og að lokum heimaleik gegn Völsungi.