Á vef Síldarminjasafn Íslands er að finna námsefni fyrir börn. Þar er hægt að kynna sér barnabókina “Saga úr síldarfirði” eftir Örlyg Kristfinnsson
Út er komin barnabókin Saga úr síldarfirði eftir Örlyg Kristfinnsson í samstarfi Uppheima og Síldarminjasafnsins á Siglufirði.
Saga úr síldarfirði segir frá Sigga sem 12 ára gamall flyst ásamt fjölskyldu sinni til Siglufjarðar í upphafi síðustu aldar. Þar bíður ný framtíð þeirra sem áður sáu ekki aðra leið út úr ógöngum og sárri fátækt en að flytja til Vesturheims í von um betra líf. Tilvera Sigga tekur stakkaskiptum – en það er ekki einfalt að byrja upp á nýtt á ókunnum stað. Þessi örlagasaga byggir á raunverulegum atburðum sem lesa má um á vef Síldarminjasafns Íslands.
Örlygur Kristfinnsson, myndlistarmaður og safnstjóri Síldarminjasafnsins, segir í þessari bók sögu sem kemur okkur við. Hann segir okkur hvernig síldarbær varð til,
iðandi af lífi með alþjóðlegum blæ, þar sem silfur hafsins var gjaldmiðillinn sem greiddi dugmiklu alþýðufólki leið úr örbirgð til bjargálna og breytti íslensku samfélagi á undraskömmum tíma.
Höfundur myndskreytir bókina sjálfur með glæsilegum vatnslitamyndum sem fullkomna verkið og tendra í frásögninni liti og líf.
Hægt er að skoða bókina með því að smella á myndina.