Lið KF/Dalvíkur í 4. flokki kvenna lék í dag við Stjörnuna til úrslita á ReyCup á Valbjarnarvelli í Laugardal. KF/Dalvík byrjaði leikinn betur og pressuðu hátt á velli og áttu Stjörnustelpur í töluverðum vandræðum í útspörkum og koma boltanum úr teignum. KF/Dalvík var sterkara liðið mestan part fyrri hálfleiks en Stjarnan átti nokkrar sóknir undir lok hálfleiks og voru einu sinni nálægt því að skora.  Staðan var 0-0 í hálfleik.

Í síðari hálfleik komu Stjörnustelpur ákveðnar til leiks og pressuðu vel fyrstu mínúturnar en án þess að skapa sér færi. Töluverð miðjubarátta var í síðari hálfleik og fengu liðin nokkrar hornspyrnur sem voru sérstaklega hættulegar hjá KF/Dalvík. Þá var leikmaður nr. 13 (Rakel) sérlega ógnandi í sókninni hjá norðanliðinu. Lokatölur 0-0 og varð því að skera úr um sigurinn í vítaspyrnukeppni og þurfti þrjár spyrnur til að sigra leikinn. KF/Dalvík átti fyrstu spyrnuna en hún fór rétt framhjá markinu. Stjarnan átti næstu spyrnu og skoraði, staðan 1-0. KF/Dalvík  tók næstu spyrnu, og var hún glæsilega varin hjá markmanni Stjörnunnar.  Stjarnan skoraði úr næstu spyrnu, staðan 2-0 og sigurinn þeirra.

KF/Dalvík voru frekar óheppnar að ná ekki marki í leiknum og voru heilt yfir sterkara liðið og fengu dyggan stuðning áhorfenda sem kölluðu “áfram bláar“. Þær enduðu því í 2. sæti en Stjarnan í 1. sæti, 4. flokks kvenna, B-liða.

20140727_140755 kf-dalvik-kvenna

Ljósmyndir: Héðinsfjörður.is