Yngvi Jósef Yngvason hefur verið ráðinn í starf varaslökkviliðsstjóra hjá Brunavörnum Skagafjarðar og mun hann hefja störf í desember næstkomandi. Yngvi tekur við stöðunni af Sigurði Bjarna Rafnssyni sem mun láta af störfum í október.
Yngvi hefur starfað sem hlutastarfandi slökkviliðsmaður í tæplega 20 ár hjá Brunavörnum Skagafjarðar og er með löggildingu slökkviliðsmanns sem og í sjúkraflutningum. Hann er með sveinsbréf í rafvirkjun og málmsteypu, ásamt því að vera með vélavarðar- og vélstjórnarréttindi. Hann er með meirapróf og réttindi til að stjórna minni vinnuvélum, köfunarréttindi, skipstjórnarréttindi (30 tonna) ásamt skotvopnaleyfi. Að auki hefur hann lokið ýmsum námskeiðum sem tengjast slökkviliðinu og sjúkraflutningum.