Yfir 250 fyrirtæki hafa þegar skráð sig til þátttöku í hvatningarverkefnið Ábyrg ferðaþjónusta en tilgangur þess er að Ísland verði ákjósanlegur áfangastaður ferðamanna um ókomna tíð. Með ábyrgri ferðaþjónustu er átt við að fyrirtækin axli ábyrgð á þeim afleiðingum sem rekstur þeirra hefur á umhverfið og samfélagið.
Safetravel verkefni Slysavarnafélagsins Landsbjargar er meðal þeirra sem standa að verkefninu þar sem meðal annars er horft til þekkingar Slysavarnafélagsins Landsbjargar hvað þessi mál varðar. Framundan eru vinnusmiðjur og fræðslufundir víða um land þar sem fyrirtækin vinna saman af því að uppfylla markmið þau sem sett eru fram með verkefninu.
Fyrirtækin sem taka þátt í verkefninu undirrita eftirfarandi yfirlýsingu:
Í ferðaþjónustunni eru margar áskoranir sem snúa að samfélagsábyrgð fyrirtækja. Þar má telja aukinn ágang á náttúruna, að réttindi starfsfólks séu virt, að nærsamfélögin sem ferðamenn heimsækja fái sanngjarnan skerf af ávinningnum og ekki síst að öryggi ferðamanna sé tryggt og þeim veitt góð þjónusta.
Við undirrituð ætlum að stuðla að ábyrgri ferðaþjónustu með því að:
1. Ganga vel um og virða náttúruna.
2. Tryggja öryggi gesta okkar og koma fram við þá af háttvísi.
3. Virða réttindi starfsfólks.
4. Skila okkar skerfi til samfélagsins.
Smári Sigurðsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, var í Háskólanum í Reykjavík í dag þegar verkefninu var formlega hleypt af stokkunum. Að verkefninu standa Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð og Íslenski ferðaklasinn, í samstarfi við Íslandsstofu, SAF, Ferðamálastofu, Stjórnstöð ferðamála, Höfuðborgarstofu, Markaðsstofur landshlutanna ásamt Safetravel Slysavarnafélagsins Landsbjargar.