Á tólfta tímanum í gærkvöldi hafði erlent par samband við Neyðarlínuna og óskaði aðstoðar þar sem þau væru komin í sjálfheldu í Nesskriðum við austanverðan Siglufjörð. Um var að ræða ferðamenn sem höfðu komið fótgangandi úr Héðinsfirði og ætluðu til Siglufjarðar. Á þessum vettvangi er bratt fjalllendi niður í sjó og aðkoma að fólkinu því afar erfið.
Lögreglumenn á Tröllaskaga óskuðu eftir aðstoð björgunarsveita og komu sveitir frá Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík og Akureyri til að sinna verkefninu. Alls tóku 30-40 björgunarsveitarmenn þátt í aðgerðinni ásamt lögreglu. Björgunaraðilar voru fluttir á bátum að fjallinu. Þar var notaður dróni til að kanna aðstæður og velja uppgönguleið. Aðstæður reyndust vera það erfiðar að íhugað var að fá þyrlu til aðstoðar. Þó var ákveðið að reyna landleiðina fyrst. Þá tók við erfið klifur og línuvinna og komust fyrstu menn að fólkinu um kl. 2 í nótt. Það var svo um kl. 5 sem komið var með fólkið að landi á Siglufirði.
Um er að ræða 35 ára karl og 31 árs konu. Þau voru ómeidd en mjög brugðið eftir þessa erfiðu lífsreynslu. Hér bættist við enn eitt verkefnið þar sem búnaður, þjálfun og reynsla okkar frábæru björgunarsveita færa fólk heilt heim úr háska.
Lögreglan á Norðurlandi eystra greinir frá þessu í morgun.