Laust eftir klukkan hálf sex í morgun var Lögreglan á Norðurlandi eystra kölluð til vegna tilkynningar um heimilisofbeldi í húsi á Akureyri. Tilkynnandi sem var kominn út úr húsinu skýrði frá því að meintur gerandi hótaði að beita skotvopni. Í ljósi þessara upplýsinga lokaði lögreglan nærliggjandi götum og vopnuðust vakthafandi lögreglumenn. Gerðar voru viðeigandi ráðstafanir og Sérsveit Ríkislögreglustjóra kölluð út. Skömmu eftir þetta kom meintur gerandi út úr íbúðinni án skotvopna og var hann þá handtekinn af lögreglu. Við leit í íbúðinni fundust tvær haglabyssur og nokkurt magn skotfæra. Viðkomandi sem var undir áhrifum áfengis var vistaður í fangageymslu og var svo yfirheyrður í dag.