Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Íþróttafélagi Reykjavíkur (ÍR) í 3. umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu karla. Það eru ChitoCare Beauty og Siglufjarðar apótek sem eru aðalstyrktaraðilar að allri umfjöllun um KF í sumar. Sérstök upphitun var fyrir leikinn í morgun með þessari frétt.

KF þurfti sannarlega á stigum að halda í þessum leik eftir dapra byrjun á mótinu og tap í fyrstu tveimur leikjum. ÍR liðið hefur hinsvegar leikið vel í byrjun móts og var því von á erfiðum leik. Upphaflega átti leikurinn að fara fram í gær en var frestað um sólahring vegna veðurs.

Jordan Damachoua var kominn í byrjunarliðið hjá KF eftir að hafa meiðst í upphitun í síðasta leik. Vitor Thomas, og Sævar Þór Fylkisson og Adil Kouskous byrjuðu á bekknum, en þetta eru allt leikmenn sem berjast um sæti í byrjunarliðinu.

Umfjöllun:

ÍR byrjaði leikinn með látum og skoraði þeirra heitasti maður Bragi Karl Bjarkason eftir aðeins fjórar mínútur. Strákurinn uppalinn ÍR ingur og var bestur í síðustu umferð Íslandsmótsins.

Jakob Sindrason hjá KF braut af sér innan teigst og fékk beint rautt spjald á 18. mínútu leiksins og dómarinn beinti strax á vítapunktinn. Bragi Karl tók vítið fyrir ÍR og kom þeim í 0-2. KF því orðið manni færri og fyrri hálfleikur ekki hálfnaður. Bragi Karl skoraði aftur á 40. mínútu og kom ÍR í frábæra stöðu 0-3 og strákurinn kominn með þrennu.

KF minnkaði muninn 45. mínútu þegar Dagbjartur Búi Davíðsson skoraði og minnkaði muninn í 3-1 og þannig var staðan í hálfleik. Fyrsta mark Dagbjarts fyrir KF í deildinni en hann er á 17. ári.

Þjálfari KF gerði tvöfalda skiptingu í hálfleik til að reyna bregðast við þessum liðsmun og reyna bæta leik sinna manna. Aron Elí Kristjánsson og Alex Máni Garðarson komu inná fyrir Breka Egilsson og Akil De Freitas.

ÍR gerði þrefalda skiptingu á 62. mínútu og setti óþreytta menn inná völlinn og KF gerði einnig skiptingu á 64. mínútu þegar Sævar Þór Fylkisson kom loksins inná en hann hefur verið að glíma við meiðsli undanfarið. Marinó Snær Birgisson kom af velli fyrir hann.

Nokkrum mínútum eftir þessar skiptingar skoraði Bragi Karl sitt fjórða mark fyrir ÍR og kom þeim í örugga stöðu 1-4 og rúmar 20 mínútur eftir að leiknum.

KF gerði  svo tvær síðustu skiptingar sínar þegar um 10 mínútur voru eftir og fór Jordan og Dagbjartur útaf fyrir Vitor og Jón Frímann.

Fleiri mörk voru ekki skoruð og vann ÍR sanngjarnan 1-4 sigur í þessum leik. ÍR lyfti sér í 2. sæti deildarinnar með þessum sigri.

Þriðji tapleikur KF í röð á Íslandsmótinu og er liðið í neðsta sæti. Liðið leikur næst gegn Þrótti í Vogum, laugardaginn 27. maí.

 

 

Styrktaraðilar:

Það eru tveir frábærir styrktaraðilar sem gera okkur kleyft að halda úti öflugri íþróttaumfjöllun í Fjallabyggð og styðja nú við umfjöllun um alla leik KF í deild og bikar í sumar.

Takk Siglufjarðar Apótek og ChitoCare beauty.