Byggðarráð Skagafjarðar hefur skorað á dómsmálaráðherra að beita sér fyrir auknum fjárheimildum til lögreglunnar á Norðurlandi vestra, til að embættinu sé fært að ráða í tvö stöðugildi rannsóknarlögreglumanna.

Með þeim hætti er tryggt að embættinu er unnt að sinna þeim málaflokkum sem því er falið með lögum, m.a. í kjölfar gildistöku reglugerðar nr. 851/2024 þar sem rannsóknarforræði kynferðisbrota- og manndrápsmála í umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi vestra, var fært heim í hérað.

Einsýnt er að gæta þarf jafnræðis á milli lögreglustjóraembætta og tryggt að þeim sé fært að standa undir lögbundnum skyldum sínum. Um afar mikilvæga málaflokka er að ræða og sýnir reynslan að nauðsynlegt er að tryggja að rannsóknum svo alvarlegra brota sé sinnt með vönduðum og faglegum hætti.