Sunnudaginn 7. júlí kl.16:00, við lok þjóðlagahátíðar á Siglufirði, verður minnisvarði um sr. Bjarna Þorsteinsson tónskáld og heiðursborgara Siglufjarðar vígður. Einnig verður vígt svonefnt Bjarnatorg, skreytt íslensku stuðlabergi og myndstyttu af Séra Bjarna. Þessi einstaka stytta er verk listakonunnar Ragnhildar Stefánsdóttur. Bjarnatorgið er hannað af Fanney Hauksdóttur arkitekt. Þór Sigmundsson steinsmiður vann allt steinverkið.

Minnisvarðinn og Bjarnatorgið verður afhjúpað af gefendum verksins. Þeir eru Arnold Bjarnason afabarn Séra Bjarna, sem gefur myndstyttuna og Siglfirðingurinn Páll Samúelsson sem gefur efni og vinnu við Bjarnatorgið. Áður hefur Páll gefið svonefndar kirkjutröppur, sem setja sinn svip á bæinn. Áður hefur Arnold gefið myndarlegar gjafir til kirkjunnar. Hafi þeir báðir bestu þakkir fyrir einstakan hug til Siglufjarðar og Siglufjarðarkirkju. Hátíðin fer fram á kirkjutröppunum. Sigurður Hlöðversson mun leika tvö lög á trompet frá kirkjuturni, „Blessuð sértu sveitin mín“ og „Ég vil elska mitt land“ eftir séra Bjarna.

Góðir gestir verða með okkur á hátíðinni meðal annara forsætis- og þjóðmenningarráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, en hann er tengdasonur Páls Samúelssonar og Siglfirðingurinn Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra. Ávarp, sem fjallar um sr. Bjarna og áhrif hans á íslenska menningu, verður flutt og mannvirkin blessuð.

Allir eru velkomnir á þessa hátíð. Vonandi verður hefðbundið “siglfirskt veður” , stafalogn og um tuttugu stiga hiti.
Sjáumst heil á “Bjarnahátíð” þann 7. júlí kl. 16:00.

Bjarni-Þor2
Texti og mynd fengin frá Siglfirðingafélaginu. www.siglfirdingafelagid.is