Veður fer nú ört versnandi á Vestfjörðum og vestanverðu Norðurlandi. Þar verður glórulaus bylur fljótlega í kvöld og allt að 20-25 m/s á Ströndum, við Húnaflóa og í Skagafirði í nótt. Einnig hríðarveður á norðanverðu Snæfellsnesi, í Dölum og suður í Borgarfjörð og athygli vakin á því að víða er nokkur lausamjöll fyrir og því kóf um leið og tekur að blása. Hviðuveður í Staðarsveit og eins á Kjalanesi undir morgunn.

Suðvestanlands og á Suðurlandi frystir í kvöld ofan í vegina sem nú eru blautir með tilheyrandi ísingu. Suðaustanlands og á Austfjörðum frystir einnig í nótt eða snemma í fyrramálið.

Færð og aðstæður

Það eru hálkublettir á Hellisheiði og hálka í Þrengslum. Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er á Suðurlandi og Reykjanesi.

Á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandivestra er vestnandi veður, hálka og stórhríð og því ekkert ferðaveður. Ófært og stórhríð er á Klettshálsi og Fróðárheiði, þæfingur og stórhríð er á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku.

Á Norðausturlandi er hálka eða snjóþekja og éljagangur á flestum leiðum. Flughált er í Þistilfirði og í Vopnafirði.

Á Austurlandi er hálka og snjóþekja á flestum leiðum.

Á Suðausturlandi er hálka.

Texti frá Vegagerðinni