ASÍ hefur birt verðkönnun á lausasölulyfjum og öðrum vörum í apótekum, þriðjudaginn 2. nóvember. Verð var kannað í öllum apótekum á landinu eða 26 útibúum. Borgarapótek í Borgartúni var eina apótekið sem neitaði þátttöku í könnuninni.  Verð var kannað á 80 lausasölulyfjum og 67 öðrum vörum í apótekum.

Vöruúrvalið hjá Costco var einnig minnst en einungis 63 vörur voru til af 149 sem könnunin náði til. Taka skal fram að til að geta keypt lyf hjá Costco verður að greiða árlegt aðildargjald upp á 4.800 kr. Meðalverð á vörum í könnuninni var næst lægst hjá Lyfjaveri sem var með töluvert meira úrval en Costco eða 135 vörur af 149. Lyfjabúrið með hæsta meðalverðið en 115 vörur fengust þar og Lyfja var með næst hæsta meðalverðið.

Costco var oftast með lægsta verðið í könnuninni, á 53 vörum af þeim 149 sem könnunin náði til en Rimaapótek var næst oftast með lægsta verðið, í 11 tilvikum. Hæsta verðið var oftast að finna hjá Lyfjabúrinu, í 39 tilvikum en Lyfja var næst oftast með hæsta verðið í 33 tilvikum.

Mikill munur var á hæsta og lægsta verði á ýmsum öðrum vörum sem seldar eru í apótekum eins og t.d. bætiefnum, vítamínum, sjampói og snyrtivörum. Sem dæmi má nefna 33% eða 1.577 kr. verðmun var á 60 hylkjum af fæðubótarefninu Benecta sem fékkst hjá öllum söluaðilum. Lægst var verðið í Costco, 4.783 kr. en hæst í Lyfsalanum Glæsibæ, 6.360 kr. Verðmunur á stærri pakkningu af Benecta með 240 hylkjum var 4.221 kr. eða 24%. Lægst var verðið í Costco, 17.504 kr. en hæst í Apóteki Suðurlands, 21.725 kr.

Samanburðurinn var gerður í eftirtöldum apótekum: Apóteki Garðabæjar, Apóteki Hafnarfjarðar, Austurbæjar Apóteki, Costco Apóteki, Efstaleitis Apóteki, Farmasíu, Garðs Apóteki, Íslands Apóteki, Apótekaranum Akureyri, Lyf og heilsu Kringlunni, Lyfju Lágmúla, Lyfjabúrinu, Lyfjavali Mjódd, Lyfjaveri Suðurlandsbraut, Lyfsalanum Glæsibæ, Apótek MOS, Reykjavíkur Apóteki, Rima Apóteki, Urðarapóteki, Borgar Apóteki, Akureyrarapóteki, Siglufjarðar Apóteki, Apóteki Suðurlands, Apóteki Suðurnesja. Reykjanesapóteki og Apóteki Vesturlands.

Nánar má lesa á vef ASÍ.

Heimild: asi.is.