Mikil gleði ríkti á meðal þeirra sem nutu fjölda viðburða á Akureyrarvöku um helgina. Akureyrarvaka var sett í Lystigarðinum á föstudagskvöldið og er talið að aldrei hafi fleira fólk safnast saman í garðinum af þessu tilefni. Einnig er talið að metþátttaka hafi verið í Draugaslóð Minjasafnsins, Leikfélags Akureyrar og Leikfélags Hörgdæla, sem fór fram að setningu lokinni.
Akureyrarvöku lauk í gær í Ketilhúsinu þar sem fram komu fjórir nemendur stórsöngvarans Kristjáns Jóhannssonar, þau Aðalsteinn Már Ólafsson, bariton, Kristján Jóhannesson, bassi, Una Dóra Þorbjörnsdóttir, sópran og Unnur Helga Möller, sópran.
Dagskrá Akureyrarvöku hófst með árlegri opnun Myndlistarfélagsins í Hofi á föstudag kl. 17:00 og við tók mikil dagskrá þar sem yfir 100 viðburðir fóru fram víðsvegar um bæinn. Haldið var bryggjuball á Torfunefsbryggjunni og að því loknu héldu margir ballgestanna í rómantíska siglingu um Pollinn skömmu eftir miðnætti.
Á laugardag opnaði Listasafnið yfirlitssýningu á verkum Gústavs Geirs Bollasonar, sem stendur til 16. október, en einnig voru opnanir í öllum helstu galleríum og sýningarsölum bæjarins. Fimleikafélag Akureyrar skemmti börnum á Ráðhústorginu og eyfirskir hönnuðir sýndu vörur sínar um allan miðbæinn. Sirkus Íslands og Stórsveit Félags harmonikkuunnenda slógu svo botninn í dagskrá miðbæjarins með frábærri skemmtun.
Akureyrarvaka var mjög áberandi á Rás 2 um helgina þar sem voru beinar útsendingar úr Hofi frá Bergsson og Blöndal, Helgarvaktinni og Afmælistónleikum Björgvins Halldórssonar á laugardagog Gestum út um allt á sunnudag.
Akureyri.is greinir frá.