Veiga Grétarsdóttir, kajakræðari og transkona frá Ísafirði rær nú á kajak umhverfis Ísland og safnar áheitum fyrir Píeta samtökin, sem sinna þjónustu við fólk í sjálfsvígshættu, með sjálfsskaða og aðstandendur.Veiga er væntanleg til Siglufjarðar um kvöldmatarleytið í dag, mánudaginn 5. ágúst.

Veiga lagði af stað frá Ísafirði þann 14. maí síðastliðinn og fer rangsælis um landið, á móti straumnum og er þetta í fyrsta sinn sem einhver ræðst í slíkt afrek. Veiga áætlar að ljúka hringnum um miðjan ágúst.

Veiga mun halda fyrirlestur, þriðjudaginn 6. ágúst kl. 20:00 á Siglufirði í Ráðhússalnum Gránugötu 24, þar sem hún mun fjalla um reynslu sína af vanlíðan, sjálfsvígshugsunum, kynleiðréttingarferlinu og hvernig kajaksiglingar hafa hjálpað henni að finna tilgang með lífinu.

Í för með Veigu er Óskar Páll sem er að vinna að heimildarmynd um ferðalag Veigu.

Frekari upplýsingar um Veigu og verkefnið hennar má finna á eftirfarandi vefslóðum: http://www.veiga.is og https://pieta.is/a-moti-straumnum/

Tökum vel á móti Veigu og fjölmennum á bæjarbryggjuna á Siglufirði.

Þeir sem áhuga hafa á að sigla á móti Veigu og fylgja henni til hafnar eru hvattir til að setja sig í samband við Lindu Leu Bogadóttur, markaðs- og menningarfulltrúa Fjallabyggðar í síma 861-0268 eða á netfangið lindalea@fjallabyggd.is.