Á heimasíðu Vegagerðarinnar stendur að vegfarendur segjast fyrst og fremst vilja breikka vegina þegar spurðir hvað þeir helst vilja bæta á þjóðvegum landsins. Tæpur helmingur vill það en tæp 30 prósent vilja auka við bundið slitlag og tæp 10 prósent slétta vegi. Þetta kemur fram í könnun Maskínu fyrir Vegagerðina um þjóðvegi landsins, sumarkönnun.
Svipaður fjöldi og áður telja þjóðvegi á Íslandi almennt góða eða tæp 43 prósent, um 31 prósnet telja þá slæma.
Nokkuð fleiri en undanfarið telja kantstikur fullnægjandi eða 54 prósent, en tæp 35 prósent segja hvorki né, og þá eru rúm 11 prósent sem telja kantstikur ekki fullnægjandi.
Sömu sögu er að segja um yfirborðsmerkingar, heldur fleiri telja þær fullnægjandi eða 45 prósent og einnig segja heldur fleiri hvorki né eða um 37 prósent. En þeim fækkar sem telja yfirborðsmerkingar ófullnægjandi og mælast þeir tæp 18 prósent.
Vegagerðin hefur lagt í töluvert mikið átak til að bæta merkingar við vegaframkvæmdir, því eru það vonbrigði að þeim fækkar nú sem telja merkingarnar fullnægjandi en þeim hafði farið stöðugt fjölgandi síðan í ársbyrjun 2010 eða eftir að átakinu var hleypt af stokkunum. Nú segja rúm 57 prósent að merkingar séu fullnægjandi en í síðustu könnun voru það tæp 65 prósent.
Könnunin er ítarleg og hægt er að skoða hana alla hér.