Vatn er farið að þrýstast upp úr klæðningu vegarins um Héðinsfjarðargöng og holur hafa myndast í malbikið. Moka þarf upp úr veginum á sjö stöðum til að bæta við vatnslögnum.
Þrjúhundruð og fimmtíu lítrar af vatni renna á hverri sekúndu úr Héðinsfjarðargöngum í sjóinn í Ólafsfirði. Öllum er eflaust í fersku minni sá mikli vatnselgur sem verktakinn við gangagerðina þurfti að kljást við, en þetta vatn var beislað og því safnað saman í lagnir í vegkantinum.
Jón Magnússon, verkfræðingur hjá Vegagerðinni, segir að vatnsvarnir virki ágætlega í lofti og veggjum en upp úr malbikinu virðist koma vatn á nokkrum stöðum.
Það er á sjö stöðum í göngunum sem grípa þarf til aðgerða. Svæðin verða grafin upp og lögð í þau sérstök drenrör sem taka við þessu vatni og veita því í stofnlagnir. Áætlað er að viðgerðin kosti 4,3 milljónir króna og Jón vonast til að þar með sé vandinn leystur. „Hins vegar getur maður aldrei útilokað að nýr staður finnist og vatn þröngvi sér einhversstaðar upp síðar. En þessi aðgerð mun tryggja varanlega viðgerð.“
RÚV greinir frá.