Nú er lokið úthlutun úr rannsóknasjóði Vegagerðarinnar fyrir árið 2012.

Alls bárust 155 umsóknir og sótt var um samtals 394 milljón krónur. Rannsóknasjóðurinn hafði hins vegar 127 milljónir til ráðstöfunar, sem er nokkuð lægra en vera ætti miðað við ákvæði í vegalögum um að 1,5 % af mörkuðum tekjum Vegagerðarinnar skuli árlega veitt til rannsókna. Þannig var aðeins hægt að styrkja hluta umsókna og í mörgum tilvikum nær fjárveitingin ekki heildarupphæð umsókna.

Eitt verkefnið sem hlaut styrk heitir: Samgöngubætur og byggðaþróun: Félagsleg, efnahagsleg og menningarleg áhrif Héðinsfjarðarganga á mannlíf á norðanverðum Tröllaskaga.

Stutt lýsing á verkefninu:

Þegar Héðinsfjarðargöngin voru tekin í notkun haustið 2010 varð innanbæjarakstur milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, jafnframt því sem láglendisleið opnaðist milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar sem jók samgönguöryggi og tengdi mið-Norðurland sterkari samgönguböndum. Í mati á samfélagsáhrifum Héðinsfjarðarganga frá árinu 2001 eru sérstaklega færð fyrir því rök að göngin muni styrkja Eyjafjarðarsvæðið sem vaxtarsvæði og sem mótvægi gagnvart höfuðborgarsvæðinu. Með göngunum verði til samfellt atvinnusvæði sem nái frá Akureyri til Siglufjarðar með ríflega 20 þúsund íbúum. Það geti meðal annars leitt til fjölbreyttari starfa og minna atvinnuleysis, hærri launa, lægra vöruverðs og fjölbreyttari verslunar og þjónustu, auk þess sem margvísleg ný tækifæri skapist í ferðaþjónustu á Norðurlandi. Ólafsfjörður og Siglufjörður hafa þegar verið sameinaðir í sveitarfélagið Fjallabyggð og mun sú sameining hafa umtalsverð áhrif nú þegar göngin hafa verið opnuð. Til lengri tíma litið er gert ráð fyrir því að göngin muni hafa í för með sér margvíslegar breytingar á samfélagi, menningu og lífsháttum á norðanverðum Tröllaskaga. Markmið þessa verkefnis er að leggja heildstætt mat á þær breytingar og auka skilning á áhrifum stórframkvæmda í vegagerð almennt.

Verkefnið sem hófst árið 2009 skiptist í sex meginsvið en tengist saman með heildstæðri aðferðafræði. Í fyrsta lagi eru samgöngumynstur á svæðinu skoðuð með margvíslegum hætti. Í öðru lagi er búseta, búsetuáform og búsetuþróun kortlögð. Í þriðja lagi er litið til efnahagsgerðar samfélagsins með áherslu á atvinnu, húsnæði, verslun og þjónustu. Í fjórða lagi eru metnar breytingar á opinberri þjónustu, sérstaklega skólamálum, heilbrigðisþjónustu, löggæslu og félagsþjónustu. Í fimmta lagi er félagslegur auður samfélaganna metinn með áherslu á félagslega þátttöku, samskipti og traust. Í sjötta lagi eru áhrif samgöngubótanna á stöðu kynjanna metin í tengslum við tilraunaverkefni um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð.

Verkefnið er unnið í samvinnu við hagsmunaaðila á borð við Fjallabyggð, Vegagerðina, Innaríkisráðuneytið og ýmis samtök, fyrirtæki og opinberar stofnanir. Verkefninu er ætlað að efla skilning á áhrifum samgöngubóta á byggðaþróun og lífsgæði í dreifðum byggðum og getur því haft umtalsvert hagnýtt gildi fyrir stefnumótun í samgöngumálum og þekkingu á þessu sviði á alþjóðavettvangi.

Upplýsingar um allt verkefnið má lesa hér.