Undanfarin 14 ár hefur verið haldin ljóðasamkeppni milli nemenda í 8.-10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar á vegum Ljóðahátíðarinnar Haustglæður.  Nemendur Grunnskóla Fjallabyggðar komu í heimsókn í Menntaskólann á Tröllaskaga um miðjan nóvember og nýttu listaverk nemenda og kennara MTR sem kveikjur að ljóðum. Eftir þessa heimsókn urðu til 70 ljóð hjá rúmlega 50 nemendum sem tóku þátt í samkeppninni. Fimm manna dómnefnd valdi svo bestu ljóðin.
Í lok síðustu viku fjölmenntu nemendur í Ljóðasetrið á Siglufirði til að verða viðstödd verðlaunaafhendinguna.  Óhætt er að segja að bekkurinn hafi verið þétt setinn á setrinu.
Að þessu sinni voru það þrjár stúlkur úr 9. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar sem áttu bestu ljóðin að mati dómnefndar.
Sigurvegarnir eru þær Aníta Heiða Kristinsdóttir, Katrín Hugljúf Ómarsdóttir og Natalía Perla Kulesza. Þær hlutu að verðlaunum ljóðabækur og gjafabréf frá Sigló-veitingum.
Myndir: Halldóra María Elíasdóttir og Þórarinn Hannesson
Myndir: Halldóra María Elíasdóttir og Þórarinn Hannesson