Hið árlega Jónsmessumót Kjarnafæðis í strandblaki fór fram á strandblaksvellinum við Rauðku á Siglufirði fyrir skemmstu. Mótið hefur fest sig í sessi sem glæsilegt strandblaksmót sem lið víðs vegar af Norðurlandinu sækja. Mótið var tvískipt í þetta sinn en karlarnir spiluðu föstudaginn 16.júní og dömurnar miðvikudaginn 21.júní.
Karlamótið var jafnt og skemmtilegt og sáust mörg glæsi tilþrifin en sex lið mættu til leiks og spiluðu allir við alla. Lokaleikur mótsins var hreinn úrslitaleikur milli heimadrengjanna Óskars og Karols og Akureyrarpiltanna Arnars og Þorra. Leikurinn var hnífjafn allan tímann en að lokum voru það heimadrengirnir sem lönduðu sigri, 21-19.
Hjá dömunum mættu sjö lið til leiks og var spilað í tveimur riðlum og svo úrslitaleikir. Örlítill vindur var á meðan á mótinu stóð sem hafði áhrif á spilamennskuna en tilþrifin létu veðrið ekki trufla sig. Eftir hnífjafna riðlakeppni voru það heimadömurnar Helga Eir og Rut sem spiluðu úrslitaleikinn við Kristínu og Eyrúnu frá Akureyri. Hinar ungu heimadömur sýndu flotta spilamennsku í úrslitaleiknum og sigruðu nokkuð örugglega eða 21-10.
Mótshaldarar vilja þakka Kjarnafæði sérstaklega fyrir stuðninginn en fyrirtækið hefur styrkt Jónsmessumótið undanfarin ár með veglegum verðlaunum.
Næsta mót sem fram fer á Strandblaksvellinum á Siglufirði er PARAMÓT en stefnt er að því að það fari fram fimmtudaginn 13.júlí.