Fjarðargangan í Ólafsfirði hófst á föstudagskvöld með næturgöngu og var aðalkeppnin í dag. Þrátt fyrir óveðurspá, appelsínugula viðvörun, 12 m/s og 10 stiga hita þá var keyrt á mótið kl. 11. Mótshaldarar ákváðu þó að stytta vegalengdir vegna veðurs í dag. Ótrúleg seigla í keppendum að taka þátt í þessu roki í dag en vindstyrkur var 10-20 m/s á meðan keppni stóð og 18/28 m/s í hviðum.
Á föstudagskvöld tóku 11 þátt í 15 km göngu og kláruðu 10 manns. Fyrstur í mark var Helgi Reynir Árnason. Drottningin Elsa Guðrún Jónsdóttir var fyrst kvenna í mark á tímanum 00:27:17 og Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir varð önnur og skammt á eftir. Mikill endasprettur var um 2. sætið en aðeins munaði 5 sekondum á milli 2.-3. sætis í karlaflokki.
Þá tóku 17 þátt í 7,5 km á föstudagskvöld og fyrstur í mark var Heiðar Gunnólfsson á tímanum 00:22:48. Jónína Kristjánsdóttir var fyrst kvenna í mark á tímanum 00:29:02.
Mikill fjöldi var klár í slaginn á aðaldeginum og ótrúlegt afrek það eitt að klára keppni við svona aðstæður þar sem rokið var gríðarlegt.
Fyrstur í mark í 30 km göngu var Helgi Reynir Árnason, en hann tók einnig 15 km gönguna deginum áður. Hann kom á tímanum 01:23:53. Sigurbjörn Þorgeirsson varð annar og Jón Garðar Steingrímsson þriðji. Fyrst kvenna var Veronika Guseva 01:38:19 í öðru sæti var Elsa Guðrún Jónsdóttir, á tímanum 01:41:25, en hún keppti einnig daginn áður. Björk Óladóttir varð þriðja. Alls hófu 43 keppni í þessum flokki og komu 41 í mark.
Hinn ungi Árni Helgason tók 15 km í dag á tímanum 00:46:55, og vann með nokkrum yfirburðum. Annar varð Róbert Bragi Kárason. Fyrst kvenna var Árný Helga Birkisdóttir, og jafnframt 3. sæti í heildar úrslitum í 15 km. Alls hófu 35 keppni í þessum flokki og 32 kláruðu.
Fjölmargir heimamenn úr Fjallabyggð tóku þátt í þessari keppni.
Einnig var hægt að fylgjast með beinni útsendingu á netinu frá keppninni ásamt viðtölum.
Öll úrslit má sjá hér á tímataka.net











