Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skipað starfshóp sem er falið það hlutverk að vinna tillögur til ráðherra um framgang mála á Langanesi, sem heyra undir málefnasvið ráðuneytisins, með það að markmiði að efla samfélagið.
Eiga tillögur starfshópsins m.a. að snúa að friðlýsingu á hluta Langaness, t.d. með stofnun þjóðgarðs, eflingu hringrásarhagkerfisins og grænni atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Jafnframt verði hugað að bættu orkuöryggi svæðisins með tillögum er snerta dreifi- og flutningskerfi raforku, jarðhitaleit og aukna orkuöflun innan svæðis.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Á fundi sem ég átti nýlega með sveitastjórnarfólki í Langanesbyggð óskaði það stuðnings ráðherra við að styrkja svæðið. Starfshópurinn sem nú hefur verið skipaður á að koma með tillögur um hvernig efla megi samkeppnisstöðu Langanesbyggðar til búsetu og stuðla að fjárfestingum á svæðinu til uppbyggingar á grænni atvinnustarfsemi.“
Starfshópinn skipa:
Njáll Trausti Friðbertsson, formaður,
Berglind Harpa Svavarsdóttir,
Steingrímur J. Sigfússon.
Kjartan Ingvarsson, lögfræðingur í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu mun starfa með hópnum.
Starfshópurinn á að skila tillögu til ráðherra fyrir 15. október 2023.