Fyrir leik KF og Dalvík/Reynis skrifuðu fimm leikmenn þriðja flokks undir tveggja ára samning við KF. Þetta eru góðar fréttir fyrir félagið og markar mikil tímamót fyrir KF.

Þessir mjög svo efnilegu leikmenn heita: Páll Sigurvin Magnússon, Heimir Ingir Grétarsson og Örn Elí Gunnlaugsson, Kristófer Andri Ólason og Grétar Áki Bergsson. Það má með sanni segja að forsvarsmenn KF séu í skýjunum með að hafa klárað þessa samninga og vona að fleiri leikmenn fylgi þeirra fordæmi.

Er það einlæg ósk forsvarsmanna KF, bæði stjórnar og framkvæmdarstjóra að fleiri leikmenn feti í fótspor þessara leikmanna og semji við uppeldisfélag sitt og taki þar með þátt í þeirri uppbyggingu sem á sér stað hjá KF.