Fiskisúpukvöldið á Fiskideginum mikla gekk vel fyrir sig og ánægjan skein úr hverju andliti. Því má segja að “vináttukeðjan” hafi svo sannarlega haldið.
Í kvöld verða tónleikar og flugeldasýning Fiskidagsins mikla á Dalvík. Gegnum árin hefur þetta verið afar vegleg dagskrá og það einnig núna. Þarna hefur gestafjöldinn náð hámarki og margt fólk sem drífur að á bílum sínum til að njóta skemmtunarinnar.
Það þarf því að gera ráðstafanir varðandi umferðarskipulagið og einnig til að tryggja öryggi mannfjöldans á hátíðarsvæðinu.
Í dag verður venjubundin leið gegnum bæinn lokuð, þ.e. Skíðabraut, Hafnarbraut og Gunnarsbraut. Önnur aðalleið hefur verið skilgreind en það er Skíðabraut – Mímisvegur – Böggvisbraut – Karlsrauðatorg og Gunnarsbraut. Bifreiðastöður á þessum götum eru bannaðar, beggja vegna. Leiðin er vel merkt með bleikum lit á korti í Fiskidagsblaðinu (sjá nettengil að neðan).
Einnig verður hægt að aka aðra leið í gegnum Dalvík. Þá er beygt inn Svarfaðardal og ekið neðan Böggvisstaða. Þessi leið er einstefna til norðurs á tímabilinu 09:00 til 22:00 en breytist í einstefnu til suðurs eftir kl. 22:00 í kvöld, laugardagskvöld.
Öðrum en íbúum er óheimilt að leggja bílum í íbúðargötum á Dalvík og ber gestum að nota áður tilgreind bílastæði sem eru merkt svæði nr. 1 (,,sandurinn“) og 2 (við frystihúsið) í Fiskidagsblaðinu (sjá nettengil að neðan). Á þessum stöðum verða starfsmenn sem leiðbeina og aðstoða við að raða í stæðin.
Það verða mörg ökutæki á Dalvík í kvöld og margt fólk á heimleið eftir að flugeldasýningunni lýkur. Það mun taka tíma að koma öllum heim, en með samvinnu okkar allra mun þetta ganga vel. Því er mikilvægt að við sýnum hvort öðru tillitssemi og þolinmæði.
Nánar um lokanir og skipulag hér.