Æfing Slökkviliðs Fjallabyggðar í Strákagöngum gekk vel í gærkvöld og koma allir reynslunni ríkari frá verkinu.
Strákagöng voru opnuð í nóvember 1967 og er þetta í fyrsta skipti, svo vitað sé, að æfing sem þessi er haldin. Æfingin var umfangsmikil þar sem umferð um veginn var lokað í nokkrar klukkustundir og sáu Björgunarsveitin Strákar og lögreglan á Norðurlandi eystra um að manna lokunarpósta. Þá komu slökkviliðsmenn frá Slökkviliði Akureyrar með æfingarbúnað sem Vegagerðin hefur fjárfest í og er ætlaður er til æfinga í jarðgöngum. Með honum var hægt að búa til sem raunverulegastar aðstæður í göngunum.
Fulltrúar frá Vegagerðinni, Slökkviliði Akraness og Hvalfjarðarsveitar og Slökkviliði Borgarbyggðar fylgdust með æfingunni. Þá tóku Neyðarlínan og stjórnstöð Vegagerðarinnar þátt í æfingunni.
Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd eru aðstæður sem skapast í jarðgöngum ekki þær ákjósanlegustu ef eldur kemur upp.
Þó er alveg ljóst að þörf er á sérhæfðari búnaði fyrir Slökkvilið Fjallabyggðar til þess að takast á við atburði í jarðgöngum en 24% af jarðgangakerfi Íslands er á Tröllaskaga í metrum talið.
Slökkvilið Fjallabyggðar greindi frá þessu á samfélagsmiðlum ásamt ljósmynd.