Akureyrarvaka verður haldin um næstu helgi, 30. ágúst – 1. september, með glæsilegum tónleikum á Ráðhústorgi, háskalegri Draugaslóð á Hamarkotstúni, Víkingahátíð og fleiru. Rétt innan við 80 viðburðir eru á dagskrá og enn eru að bætast við fleiri atriði. Gestum er bent á að skoða alla dagskrána á akureyrarvaka.is

Hátíðarhöldin hefjast formlega með Rökkurró í Lystigarðinum kl. 20.30 á föstudagskvöldið þar sem boðið verður upp á ýmis tónlistaratriði, dans og rómantíska stemningu í upplýstum garðinum fram eftir kvöldi.

Í þéttskipaðri dagskrá helgarinnar má einnig finna Draugaslóð á Hamarkotstúni, tónleikaröðina Mysing í portinu á bak við Listasafnið, götukörfuboltamót í Garðinum hans Gústa, Pálínuboð í Fálkafelli, Víkingahátíð á MA-túninu, Taekwondo sýningu og Fornbílasýningu í Listagilinu, svo fátt eitt sé nefnt.

Líf og fjör verður í Menningarhúsinu Hofi alla helgina og má til að mynda nefna dansviðburði sumarlistamanns Akureyrar, Leikhúslög barnanna í boði Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, Sönghópinn Ómar og hina einu sönnu Unu Torfa auk þess sem Ljóðajazz fer fram á sunnudagskvöldinu í Hofi en þar koma saman íslenski rithöfundurinn Einar Már Guðmundsson og danska tónskáldið Dorthe Höjland.

Hápunktur Akureyrarvöku er án efa stórtónleikar á Ráðhústorgi á laugardagskvöldinu þar sem norðlenska hljómsveitin Skandall, Skítamórall, Una Torfa, Emmsjé Gauti og sjálfur Bubbi Morthens halda uppi fjörinu. Kynnir kvöldsins er leikkonan Ólafía Hrönn Jónsdóttir.