Frá áramótum hafa um tvö þúsund gestir heimsótt Síldarminjasafnið á Siglufirði og eru horfurnar fyrir sumarið mjög góðar. Boðuð hefur verið koma nær 50 hópa og tveggja skemmtiferðaskipa og gert er ráð fyrir að salta síld í það minnsta 22 sinnum á planinu við Róaldsbrakka! Til samanburðar má nefna að fram fóru fimmtán síldarsaltanir á síðasta ári.
Sex sumarstarfsmenn hafa verið ráðnir til starfa, bæði til útivinnu og yfirsetu. Fjölmörg verkefni liggja fyrir, á lóð safnsins og í Slippnum svo dæmi séu tekin. Sinna þarf yfirsetu í safnhúsunum og á Úra- og silfursmíðaverkstæðinu, en Síldarminjasafnið hefur séð um að halda því opnu fyrir gesti undanfarin sumur.
Safnið er opið daglega frá 1. júní – 31. ágúst kl 10-18. Vor og haust kl 13-17.
- Á öðrum tímum er opið eftir samkomulagi.
- Aðgangseyrir er 1.200 kr. ókeypis er fyrir börn og unglinga undir 16 ára í fylgd með foreldrum. Lífeyrisþegar og ungmenni undir 20 ára greiða 600 kr.
- Skólahópar: grunnskólar 200 kr. á hvern í hópi, framhaldsskólar 300 kr. á hvern í hópi.