Á annað hundrað stofnfjáreigendur í Sparisjóði Svarfdæla hafa ákveðið að höfða mál til að knýja fram bætur fyrir tjón sem þeir urðu fyrir við stofnfjáraukningu í sjóðnum árið 2007.
Samtök stofnfjáreigenda í Sparisjóði Svarfdæla hafa undanfarna mánuði rannsakað ýmis atvik er tengjast stofnfjáraukningu sparisjóðsins í árslok 2007 og hvernig hún var fjármögnuð.
Meðal annars var höfðað vitnamál fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra þar sem kallaðir voru fyrir þeir sem stýrðu stofnfjáraukningunni á sínum tíma. Niðurstaðan hefur leitt í ljós að lög voru brotin á margan hátt bæði í tengslum við útboð stofnfjárhlutanna og fjármögnun þeirra.
Nú hafa ríflega 100 manns ákveðið að höfða mál á hendur þeim sem stýrðu stofnfjáraukningunni; þáverandi stjórnendum Sparisjóðsins, fyrrverandi stjórnendum Saga Capital og KPMG.
Hópurinn hefur fengið hæstaréttarlögmann til að reka málið sem höfðað verður á næstu vikum.
Heimild: Rúv