Rútan sem fór útaf Ólafsfjarðarvegi fyrir rúmri viku var í dag dregin upp á Ólafsfjarðarveg og af vettvangi. Tveir stórir dráttarbílar frá ET drógu rútuna upp á veg og voru með keðjur festar við sitthvoran öxulinn á rútunni. Lögreglan lokaði veginum í skamma stund á meðan aðgerðinni stóð og fylgdist Slökkvilið Fjallabyggðar með hvort mengandi efni kæmu frá rútunni. Virðist það hafa verið í lágmarki samkvæmt skoðun slökkviliðsins.

Rútan var síðan dregin í gegnum Múlagöng þar sem hún er sett á tengivagn og þannig verður hún flutt suður til höfuðborgarinnar en hún er í eigu Hópbíla í Hafnarfirði.

Mildi þótti að enginn hafi slasast í þessu umferðarslysi, en erlendir ferðamenn á leiðinni til Siglufjarðar voru farþegar rútunnar eins og greint var frá áður.

Það var slökkvilið Fjallabyggðar sem tók myndina af rútunni þar sem hún var dregin upp á veg.

Ljósmynd: Guðmundur Ingi Bjarnason
Mynd: Lögreglan á Norðurlandi eystra.