Alls voru 22 erlendir ferðamenn í rútunni sem valt. 5 voru fluttir með þyrlu og sjúkraflugvélum á Landspítalann og þar á gjörgæsludeild. Tveimur er haldið sofandi í öndunarvél en eru sagðir vera með stöðug lífsmörk. 5 voru lagðir inn á Sjúkrahúsið á Akureyri. Nánari upplýsingar um áverka liggja ekki fyrir hjá lögreglu á þessari stundu.
Eftir læknisskoðun fengu aðrir farþegar liðsinni frá fjöldahjálparstöð Rauða krossins, sem opnuð var á Akureyri og voru síðan aðstoðaðir við að komast í gistipláss.
Ferðalangarnir eru frá Tékklandi og hefur lögregla verið í sambandi við ræðismann Tékklands á Íslandi vegna þessa slyss.
Rannsókn og vettvangsvinnu lauk á fjórða tímanum í nótt og var vegurinn þá opnaður á ný fyrir almennri umferð. Enn er unnið að því að hreinsa vettvang og þá sérstaklega olíu sem komst í Öxnadalsá.
Rannsókn á slysi sem þessu er mjög viðamikil og miðar að því að leiða í ljós orsakir slyssins. Vettvangur er m.a. ljósmyndaður, myndaður úr lofti með drónum, skannaður með þrívíddarskanna, mældur upp og dreifing braks skrásett. Vegurinn sjálfur er rannsakaður, yfirborð hans skoðað, vegaxlir, merkingar og þess háttar. Þá er ökutækið sjálft rannsakað gaumgæfilega, hjólbarðar, stýrisbúnaður, hemlabúnaður og ökuriti. Ástand og staða öryggisbelta er kannað o.s.frv. Ástand ökumanns er ætíð kannað sérstaklega, réttindi hans og reynsla.
Hér er aðeins tæpt á því helsta en allt tekur þetta tíma og oftast er ekki hægt að hleypa almennri umferð gegnum vettvanginn meðan þetta fer fram.
Þegar þetta slys varð var umferð beint um Tröllaskaga gegn um Siglufjörð, Ólafsfjörð og Dalvík. Umferðin þarf þá að fara gegnum hin einbreiðu Strákagöng og Múlagöng. Þar er hægt að virkja sjálfvirka umferðarstýringu með lokunarslám beggja vegna gangnanna. Það var gert um leið og ákveðið var að beina umferðinni þessa leið.
Rannsókn á þessu umferðarslysi er enn á frumstigi og orsakir slyssins liggja ekki fyrir. Vísbendingar eru um að hluti farþeganna hafi ekki verið í öryggisbeltum þegar rútan valt og er það hluti af rannsókninni að upplýsa um það.
Lögreglan á Norðurlandi eystra fer með rannsókn málsins en Rannsóknarnefnd samgönguslysa gerir einnig sína rannsókn.