Undanfarin ár hefur það verið vilji Menningarnefndar Fjallabyggðar, bæjarfulltrúa Fjallabyggðar og fleiri aðila sem umhugað er um framtíð Tjarnarborgar á Ólafsfirði, að auka fjölbreytni menningarlífs í húsinu.
Nú í ágúst mun Tónskóli Fjallabyggðar flytjast inn í Tjarnarborg, á 2. hæð og félagsmiðstöðin Neon á Ólafsfirði verður einnig með sína starfsemi þar eins og verið hefur. Með því skapast aukið líf í húsinu.
Markaðssetja þarf menningarhúsið Tjarnarborg á landsvísu sem góðan kost til viðburða eins og til ráðstefnuhalds, leik- og myndlistasýninga og tónleika. Því er talið mikilvægt að einstaklingar, stofnanir og félög í Fjallabyggð hafi greiðan aðgang að hentugu húsnæði fyrir starfsemi sína.
Bæjarstjórn Fjallabyggðar hefur tekið þá ákvörðun að veitingarekstri verði hætt af hálfu sveitarfélagsins og gerir bæjarráð það að tillögu sinni að miðað verði við 1. ágúst 2012. Tjarnarborg verður vettvangur fyrir hvers kyns samkomur s.s. dansleiki, þorrablót, árshátíðir, erfidrykkjur og önnur veisluhöld. Veitingaaðilar, félög eða aðrir geta leigt húsið fyrir viðburði samkvæmt reglum sveitarfélagsins og gjaldskrá.