Slökkvilið Fjallabyggðar fékk í gær tilkynningu um eld í bát á Siglufirði. Þegar var mikið viðbragð virkjað, meðal annars áhöfnin á björgunarskipinu Sigurvin og sjúkraflutningamenn frá HSN sem héldu á vettvang ásamt slökkviliðsmönnum. Skipverjar á bátnum brugðust hárrétt við aðstæðum sem komu upp og komu í veg fyrir að verr færi.
Báturinn sem eldurinn kom upp í var færður til hafnar á Siglufirði þar sem reykkafarar gátu gengið úr skugga um að enginn eldur eða glóð væri til staðar.
Samspil og samvinna viðbragðsaðila sem og rétt viðbrögð skipverja voru til fyrirmyndar í þessum aðstæðum.
Enn og aftur sannaði öflugt björgunarskip gildi sitt þegar atburðir sem þessir eiga sér stað.
Slökkvilið Fjallabyggðar greindi fyrst frá þessu á samfélagsmiðlum ásamt mynd.