Fjallabyggð fékk þrjú tilboð í vinnu deiliskipulags fyrir suðurbæ Siglufjarðar. Tilgangur skipulagsins er fyrst og fremst að þétta byggð á Siglufirði, með því að deiliskipuleggja íbúðarlóðir inn á milli þegar byggðra lóða og nýta þannig betur það byggingarland, þar sem undirlendi fyrir nýja byggð er af skornum skammti á Siglufirði. Einnig til að svara eftirspurn eftir lóðum og hafa þær til taks þegar kallið eftir þeim kemur.
Tilboðin voru sambærileg varðandi tímaáætlun en einhver munur var á tímafjölda sem áætlaður var í verkið.
Tilboð barst frá þremur aðilum:
Yrki arkitektum
Landslagi ehf.
Eflu verkfræðistofu
Lægsta tímaverðið var hjá Yrki Arkitektum og hefur því tilboði verið tekið hjá Fjallabyggð.
Samið verður um að þessi vinna hefjist í ágúst 2023.