Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur úthlutað styrkjum að upphæð 140 milljónum kr. til þrettán fjölbreyttra verkefna til að efla byggðir landsins. Framlag til styrkjanna kemur af byggðaáætlun (aðgerð C.1 – Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða). Alls bárust nítján umsóknir fyrir um 437 m.kr. en heildarkostnaður verkefnanna var rúmlega 800 m.kr. Nokkur verkefni á Norðurlandi hlutu styrk.

Markmiðið með aðgerðinni er að tengja sóknaráætlanir landshluta við byggðaáætlun og færa heimafólki aukna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna. Landshlutasamtök sveitarfélaga geta sótt um framlög í samkeppnissjóð vegna verkefna sem nýtast einstökum svæðum eða byggðarlögum innan landshlutans eða landshlutanum í heild. Verkefni sem talin eru hafa varanleg áhrif, eru atvinnuskapandi og hvetja til nýsköpunar verði í forgangi.

Þriggja manna valnefnd fór yfir umsóknir og gerði tillögur til ráðherra. Valnefndina skipa Sigurður Árnason, sérfræðingur hjá Byggðastofnun, sem jafnframt er formaður, Elín Gróa Karlsdóttir, fjármálastjóri hjá Ferðamálastofu og Snorri Björn Sigurðsson fyrrverandi forstöðumaður þróunarsviðs Byggðastofnunar. Byggðastofnun annast umsýslu verkefnastyrkjanna.

 

Orkuskipti í Húnaþingi vestra

  • Styrkþegi: Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.
  • Styrkupphæð: 7,2 m.kr.

Undirbúningur og greining á fýsileika á uppsetningu staðarveitna tengdum varmadælum, í eigu og rekstri Hitaveitu Húnaþings vestra, á köldum svæðum í dreifbýli í Húnaþingi vestra þar sem ekki er kostur að tengjast dreifikerfi hitaveitu.

Gamli bærinn á Blönduósi – aðdráttarafl ferðamanna

  • Styrkþegi: Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.
  • Styrkupphæð: 13,4 m.kr.

Markmið verkefnisins er að hanna sýn/leikmynd á endurgerð gamla bæjarins á Blönduósi og þróa söguleiðsögn með það að markmiði að efla ferðaþjónustu á svæðinu og skapa ný störf í sveitarfélagi sem stendur frammi fyrir miklum áskorunum í atvinnumálum.

Þekkingargarðar á Norðurlandi vestra

  • Styrkþegi: Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.
  • Styrkupphæð: 8 m.kr.

Verkefnið miðar að stofnun þekkingargarða á Norðurlandi vestra með höfuðstöðvar á Sauðárkróki. Garðarnir munu tengja atvinnulíf, háskólasamstæðu Háskóla Íslands, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og sveitarfélög. Áherslan er á sjálfbæra matvælaframleiðslu sem byggir á styrkleikum svæðis.

Hjólin eru að koma – tækifæragreining fyrir sjálfbæra hjólaferðaþjónustu á Norðurlandi vestra

  • Styrkþegi: Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.
  • Styrkupphæð: 4,8 m.kr.

Í verkefninu verður unnin tækifæragreining fyrir hjólaferðaþjónustu á Norðurlandi vestra. Þar verða þjónustuframboð og landfræðilegir möguleikar svæðisins mátaðir við þær tegundir hjólaferðamennsku, sem eru útbreiddastar og þeir innviðir og sú þjónusta kortlögð, sem vantar til að mæta þörfum þessa sístækkandi markhóps. Með þessu vill landshlutinn marka sér sérstöðu sem áfangastaður hjólreiðafólks og skapa tækifæri fyrir ferðaþjónustuaðila svæðisins í þéttbýli jafnt sem dreifbýli, sem allflest teljast til ör- og smáfyrirtækja, að þjónusta þennan hóp.

Ráðhúsið á Raufarhöfn, atvinnu- og samfélagssetur

  • Styrkþegi: Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra.
  • Styrkupphæð: 8 m.kr.

Með atvinnu- og samfélagssetri er verið að skapa aðstöðu til fjölbreyttari atvinnustarfsemi á staðnum, laða að frumkvöðla og nema, efla menntastig þorpsins og styrkja stoðir þess sem fyrir er. Fjölbreytt starfsemi er þegar í húsinu, m.a. SSNE, Norðurþing, Orkuveita Húsavíkur, Landsbankinn og Íslandspóstur og því góður grunnur.

Endurnýjun hluta stofnlagnar frá borholu Hitaveitu Öxarfjarðarhéraðs við Skógalón

  • Styrkþegi: Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra.
  • Styrkupphæð: 15 m.kr.

Stofnlögnin frá borholu Hitaveitu Öxarfjarðarhéraðs við Skógalón er 27 ára gömul plastlögn sem er farin að bila og flutningsgetan er takmörkuð. Leggja á nýja stofnlögn í stálefni en með því eykst flutningsgetan og endingartími lagnarinnar.