Undirritaður hefur verið samningur til þriggja ára milli VÍS og íþróttafélagsins Þórs á Akureyri um að nafni Þórsvallar verði breytt og muni verða notast við nafnið VÍS-völlurinn að minnsta kosti næstu þrjú árin.

Í tilefni af samningum þessa efnis bauð VÍS á leik Þórs og Aftureldingar í Lengjudeildinni sem fram fór sunnudaginn 16. júlí.  Fyrir leikinn voru Þórsarar taplausir í deildinni á heimavelli, höfðu unnið fjóra leiki. Gestirnir unnu leikinn 1-3.

Ingvi Hrafn Ingvason, þjónustustjóri VÍS á Akureyri:

„Það liggur beinast við að Þórsvöllurinn verði VÍS-völlurinn, enda eigum við fallega rauða litinn sameiginlegan. Við viljum leggja okkar af mörkum til samfélagsins og það er okkur ljúft og skylt að styrkja íþróttastarfið með þessum hætti. Við hlökkum til samstarfsins.“

Sveinn Elías Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Þórs:

„Við erum þakklát VÍS fyrir þetta rausnarlega framlag og samninginn til næstu þriggja ára. Þetta skiptir íþróttastarfið miklu máli. Við erum því virkilega spennt fyrir komandi tímum.“