Úrslitaleikur Valitor-bikars karla fer fram á Laugardalsvelli á laugardag kl. 16:00, þar sem Þór og KR mætast.  Bikarsaga liðanna er ansi ólík. KR-ingar eru að leika til úrslita í 17. sinn og hafa unnið bikarinn oftar en nokkurt annað lið, eða 11 sinnum. Þórsarar höfðu fimm sinnum áður leikið í undanúrslitum, en bættu um betur í ár og eru því í fyrsta sinn í úrslitum bikarkeppninnar.

Þórsarar hafa komið skemmtilega á óvart í Pepsi-deildinni í sumar og eru um miðja deild.  KR-ingar sitja á toppi deildarinnar, ósigraðir. Það er því von á hörkuspennandi leik á Laugardalsvellinum og væntanlega mikil stemmning, því stuðningsmannahópar þessa tveggja liða þykja þeir kraftmestu í dag.