Það var aldeilis boðið upp á hörkuleik þegar Þór og KR mættust í úrslitaleik Valitor-bikars karla á Laugardalsvellinum í gær.  Þórsarar voru mun sterkari aðilinn lengst af og sóttu grimmt, án þess þó að ná að skora.  Það gerðu KR-ingar hins vegar tvisvar og fögnuðu sigri í leikslok.  Leikurinn hafði upp á allt að bjóða sem prýðir alvöru úrslitaleik og var stórkostleg skemmtun fyrir áhorfendur, sem voru vel á sjötta þúsund.

Það var í raun með ólíkindum að Þórsurum skyldi ekki takast að koma knettinum í netið, því knötturinn hafnaði alls sex sinnum í slá og stöng á marki KR-inga í leiknum.  Bæði lið vildu fá vítaspyrnu í leiknum, en varð ekki að ósk sinni. 

Fyrra mark KR-inga kom á lokamínútum fyrri hálfleiks og var það Gunnar Már, leikmaður Þórs sem varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.  Skúla Jóni leikmanni KR var síðan vísað af leikvelli í síðari hálfleik, og allt útlit fyrir mikla spennu, sem varð raunin.  Þrátt fyrir tilraunir Þórsara náðu þeir ekki að skora, en það gerðu KR-ingar hins vegar með marki Baldurs Sigurðssonar og tryggðu sér sigur í Valitor-bikarnum 2011 við gríðarlegan fögnuð fjölmargra stuðningsmanna í stúkunni.